Breska utanríkisþjónustan leggur á það mikla áherslu þessa dagana að dýpka samskiptin við lönd út um allan heim í kjölfar niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í sumar þess efnis að Bretland gangi á næstunni út úr Evrópusambandinu.

„Samband Íslands og Bretlands er í grunninn mjög sterkt, þótt það hafi átt sínar hæðir og lægðir á síðustu áratugum.

Ísland er víðsýnt land sem treystir á frjálsa verslun og ég vonast eftir að Íslendingar fái þau skilaboð frá Bretlandi að við viljum halda góðum samskiptum áfram við Íslendinga eins og allar okkar vinaþjóðir, ekki bara í beinum samstarfsverkefnum og verslun, heldur einnig í utanríkis- og heimsmálum,“ segir Nevin, en hann er ánægður með það sem hann hefur heyrt frá íslenskum stjórnvöldum.

„Íslensk stjórnvöld hafa verið mjög skýr í því að þau vilji viðhalda sterkum samskiptum og viðskiptasamböndum og ég held að slíkum skilaboðum sé sérlega vel tekið hjá stjórnvöldum í London.

Gætu lært af íslenskum fiskiðnaði

Einnig erum við nú að reyna að nýta tímann áður en við virkjum úrsagnarákvæðið, svokallaða grein 50, í lok mars til að læra hvernig aðrir hafa hlutina. Og það er ljóst að íslenski fiskiðnaðurinn stendur vel og við getum lært af honum svo hví ekki.“

Nevin segir að mörg fyrirtæki í Bretlandi treysti á íslenska fiskiðnaðinn og innflutning frá Ísland og Íslendingar standi að mörgum fjárfestingum í landinu sem bæði löndin græði á.

Sæstrengur nýtir umframorku í báðum löndum

„Við höfum enn mikinn áhuga á því að skoða möguleikann á sæstreng milli Íslands og Bretlands. Við höfum slíkar tengingar við önnur lönd og við myndum vilja skoða hvort við getum ekki að minnsta kosti gert rannsókn á því hvort slíkur strengur myndi borga sig, ef Ísland hefur áhuga á því.

Við myndum vilja vinna með íslenskum yfirvöldum og einkaaðilum að þessu, en ég held það væri gott að rannsaka þetta nánar.

Þetta yrði á endanum undir íslenskum stjórnvöldum komið, en þið hafið auðlind sem væri þess virði að geta flutt út,“ segir Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi, og bendir á að hægt væri að nýta féð í málaflokka sem rætt hafi verið um hérlendis að skorti fé, eins og heilbrigðis- og menntamál.

„ Við græðum auðvitað á því að hafa aðgang að orkunni, og það mjög græna orku, svo við værum jafnframt að hjálpa til við að grænka heiminn. Um væri að ræða streng sem gæti flutt orku í báðar áttir svo hægt væri að nýta hann ef umframorka sé í kerfinu hvorum megin sem er, sem og hann gæti nýst sem neyðarúrræði ef náttúruhamfarir myndu skaða framleiðslugetu á Íslandi sem dæmi.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .