*

laugardagur, 16. febrúar 2019
Innlent 22. september 2015 08:21

SAF: Fráleitt að leggja fram Ísraelstillöguna að nýju

Samtök ferðaþjónustunnar segja fyrirtæki hafa fundið verulega fyrir áhrifum ákvörðunar Reykjavíkur um að sniðganga ísraelskar vörur.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar segir í yfirlýsingu að fyrirtæki innan samtakanna hafi fundið verulega fyrir áhrifum ákvörðunar borgarstjórnar um að sniðganga vörur frá Ísrael. Ferðamenn hafi hætt við ferðir til landsins, hatursfullir póstar hafi borist og umræða á samfélagsmiðlum hafi verið ófögur.

Segir í yfirlýsingunni að í heimi samfélagsmiðla og nútímafjölmiðlunar sé neikvæð umræða gríðarlega fljót að berast. Íslensk ferðaþjónusta byggi að miklu leyti á því að orðspor landsins sé gott og ímyndin jákvæð. Því hafi neikvæð umræða um Ísland og Reykjavík fljótt áhrif á ferðaþjónustuna með þeim hætti sem orðið hafi.

Ljóst sé að umheimurinn telji að tillagan sem samþykkt var í borgarstjórn hljóti að vera stefna stjórnvalda á Íslandi enda eiga flestir því ekki að venjast að borgir hafi aðra stefnu í utanríkisviðskiptamálum heldur en viðkomandi ríki.

SAF telur augljóst að draga verði tillöguna til baka, en telur einnig fráleitt að lýsa því yfir á sama tíma, eins og gert hefur verið, að tillagan verði lögð fram aftur í breyttri mynd. Það væri eingöngu til þess fallið að gera illt verra.