Samtök ferðaþjónustunnar lýsa vonbrigðum með boðaða hækkun gestagjalda innan þjóðgarðsins á Þingvöllum og fara fram á að hún verði endurskoðuð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SAF.

Hækkunin nemur frá 17% til 50% og er því að sögn SAF í ósamræmi við hækkun á vísitölu neysluverðs. Samtökin gagnrýna sérstaklega hversu stuttur fyrirvari er gefinn, en hækkuð gjaldskrá er staðfest 29. júní og tekur gildi aðeins tveim dögum síðar, og minna á að allar verðbreytingar í ferðaþjónustu kalla á langan aðlögunartíma vegna eðlis greinarinnar. Þá harma samtökin að samráð skuli ekki haft við atvinnugreinina í aðdraganda breytinganna og ítreka að reglulegt og gott samráð er grundvöllur árangursríks samstarfs þjóðgarða og ferðaþjónustu.