*

sunnudagur, 20. janúar 2019
Innlent 27. nóvember 2014 18:24

SAF leggjast gegn hugmyndum náttúrupassa

Samtök ferðaþjónustunnar leggja til náttúrugjald, sem greitt yrði á hverja gistinótt, í stað náttúrupassa.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Samtök ferðaþjónustunnar telja hóflegt náttúrugjald, um eina evru, sem ferðamenn greiða á hverja gistinótt skilvirka leið við gjaldtöku sem rýri á engan hátt ásýnd náttúrunnar. Kemur þetta fram í ályktun SAF, sem send var út í dag. Segir þar að hugmyndin um náttúrupassa sé ekki sú leið sem félagsmenn samtakanna telji vænlegasta til árangurs.

Segir í ályktun SAF að sú leið, sem samtökin mæla fyrir, sé þekkt um allan heim ásamt því að byggja ofan á þá gjaldtöku sem tíðkast hefur hér á landi undanfarin ár. Leiðin sé því einnig vel fær og einföld í allri útfærslu. Þá telja samtökin að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða sé best til þess fallinn að stuðla að nauðsynlegri uppbyggingu fjölfarinna áfangastaða ferðamanna.