*

þriðjudagur, 22. janúar 2019
Innlent 22. september 2017 09:14

SagaMedica og KeyNatura í samstarf

Sjöfn Sigurgísladóttir, doktor í matvælafræði og fyrrum forstjóri Matís mun stýra báðum fyrirtækjunum.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Fyrirtækin SagaMedica og KeyNatura hafa hafið formlegt samstarf sín á milli, en fyrirtækin starfa bæði á sviði framleiðslu og sölu náttúruvara úr íslenskum hráefnum til heilsubótar. Ávinningur samstarfsins mun felast í samnýtingu á þverfaglegri þekkingu á sviði rannsókna, framleiðslu og sóknarfærum á innlendum og erlenda markaði að því er segir í fréttatilkynningu.

Markmiðið er jafnframt að ýta enn frekar undir nýsköpun með samþættum vinnuferlum og nútímalegri framleiðslutækni. Aukin meðbyr og tækifæri beggja fyrirtækjanna felast í fjölbreyttri sérhæfingu og reynslu starfsmanna.

Sjöfn Sigurgísladóttir veitir báðum fyrirtækjunum forstöðu, en hún er með doktorspróf í matvælafræði. Sjöfn starfaði áður sem framkvæmdastjóri Ocean Ecopark hjá Bluerise AG í Hollandi, forstjóri Matis ohf, Matorku ehf og sem forstöðumaður matvælasviðs Hollustuvernd ríkisins.

KeyNatura er líftæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í ræktun þörunga fyrir fæðubóta- og lyfjamarkaðinn. Fyrirtækið hóf starfsemi sína árið 2014 og framleiðir efnið Astaxanthin, sem er náttúrulegt andoxunarefni framleitt úr þörungum.

Vörur fyrirtækisins er ætlað að styrkja heilsu og eru þær fyrstu nýlega komnar á markað, t.a.m varan AstaOmega. Astaxanthin er eitt af öflugustu andoxunarefnum náttúrunnar og hefur margvísleg áhrif á líkamann. Astaxanthin er þekkt fyrir jákvæð áhrif á húð, hjarta- og æðakerfi, þrek og endurheimt orku eftir álag.

SagaMedica hefur á síðustu árum stóraukið tengsl og sóknarmöguleika á erlendum mörkuðum segir jafnframt í tilkynningunni.
Nú þegar vörur félagsins hafa náð góðri fótfestu á innanlandsmarkaði mun fyrirtækið í framhaldinu leggja aukna áherslu á markaðssetningu erlendis enda er alþjóðlegur markaður fyrir náttúruvörur í örum vexti.

SagaMedica hefur frá stofnun verið leiðandi fyrirtæki í íslenskum náttúruvöruiðnaði en sérstaða félagsins felst einkum í nýtingu íslensku hvannarinnar í fæðubótarefni. SagaMedica selur nú þegar vörur sínar í Norður-Ameríku, Kanada, Nýja-Sjálandi,
Finnlandi og Svíþjóð.