Viggó Örn Jónsson stofnaði auglýsingastofuna Jónsson & Le´macks árið 2003 ásamt Agnari Tryggva Le´macks. Stofan hefur síðan, líkt og mörg önnur fyrirtæki, lifað af það sem kalla má hæðir og lægðir í íslensku atvinnulífi. Hann er hugsi yfir þróun fjölmiðlunar undanfarin ár og segir búast við því að fólk gefist fljótlega upp á samfélagsmiðlum sem í dag hafi þann eina tilgang að vera markaðssetningartæki. Hann segir umhverfið breytt að því leyti að fólk er meðvitaðra en áður um markaðssetningu og því mikilvægara en nokkru sinni að skilaboð sem fyrirtæki sendi frá sér séu sönn.

Heimildarmyndir fá aukið vægi

Finnið þið fyrir því að neytendur í dag séu ómeðtækilegri fyrir auglýsingum en áður?

„Það fer svona eftir því hvað þú kallar auglýsingu. Menn þurfa alltaf að leita nýrra leiða og staða til að koma skilaboðunum á framfæri, það er alltaf að koma eitthvað nýtt. Gamla fyrirkomulagið var þannig að myndbönd þurftu að vera 30 eða 40 sekúndur en til dæmis var eitt af okkar best heppnuðu verkum í fyrra 6-7 mínútna myndband sem við gerðum fyrir sauðfjárbændur um bóndakonu sem var rýja kindur, hana Heiðu. Það sem við höfum verið að gera fyrir sauðfjárbændur er ekki eins og auglýsingavinna fyrir 10 árum síðan. Þar erum við í rauninni að gera heimildarmyndir en sívaxandi partur af því sem maður gerir er ekki eitthvað sem fylgir einhverju hefðbundnu auglýsingaformi.

Þarna höfum við kannski farið aðra leið en kollegar okkar – við byrjuðum með eigin kvikmyndaframleiðslu mjög snemma og framleiðum allt okkar sjónvarpsefni sjálf. Framleiðslan verður því hluti af ferlinu sem okkur finnst mikil framför frá því sem áður var.

Þegar þú sérð auglýsingu í auglýsingatíma þá er eins og einhver komi á undan sem segi: „Jæja, núna ætla ég að sýna ykkur fallegri mynd af okkur en er raunin.“ Vegna þess hvernig fólk nálgast fjölmiðla í dag er orðið mikilvægara að verið sé að segja sögu sem er sönn. Það gerist ótrúlega sjaldan að við séum að skrifa skothandrit að auglýsingu, það er raun bara í undantekningartilvikum. Landsbankaauglýsingarnar eru t.d. ekki gerðar með neinu handriti. Við eyðum þess í stað tíma með viðskiptavinunum og erum ekki að skálda neitt og í grunninn held ég að viðskiptavinurinn hafi áhugaverðari sýn á vörur bankans en bankinn eða auglýsingastofan. Það er enda oft áhugaverðara að leita að einhverju sem er satt frekar en að sitja á auglýsingastofu og kokka upp eitthvert handrit. Raunveruleikinn er líka skrítnari og skemmtilegri en fantasían.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.