Kristín Pétursdóttir, forstjóri Mentor, hefur verið áberandi í íslensku viðskiptalífi í gegnum tíðina og á áhugaverðan starfsferil að baki þar sem hún kom meðal annars að uppbyggingu Kaupþings og stofnaði Auði Capital ásamt Höllu Tómasdóttur. Í gegnum samruna fyrirtækja rann Auður Capital síðar inn í verðbréfafyrirtækið Virðingu þar sem Kristín situr í dag sem stjórnarformaður en fyrirtækið hefur verið í brennidepli að undanförnu vegna yfirvofandi samruna við fjárfestingarbankann Kviku.

Kristín var sjálf gagnrýnin á stöðu mála í íslensku sem og erlendu bankabankaumhverfi á árunum fyrir hrun en segir núverandi uppsveiflu þó af allt öðrum toga og að hún sjái fá hættumerki á lofti. Hún segir sterkt gengi íslensku krónunnar þrátt fyrir það grafalvarlegt og segir mikilvægt að ráðast að rótum vandans og skipta um gjaldmiðil. Svikalogn umlyki krónuna og þegar kemur að því að hún veikist aftur og verðbólgan fari af stað þá muni koma annað hljóð í strokkinn hjá landsmönnum.

„Partýið“ var orðið aðeins of mikið

Kristín er hagfræðingur að mennt en ákvað síðar að fara í MBA nám í Noregi og hefur starfað við fjármálageirann frá því að hún útskrifaðist. „Hagfræðin var skemmtileg en ofsalega fræðileg og mig langaði ekki að vinna beint sem hagfræðingur og ákvað því að skella mér í MBA-nám í Noregi. Þar lagði ég áherslu á fjármálamarkaði, afleiður og þess háttar, sem var það svið sem mig langaði að starfa við. Í kjölfarið byrjaði ég að vinna hjá Statoil og hóf svo síðar störf sem verðbréfamiðlari hjá VÍB, og þaðan lá leið mín síðan  í Kaupþing.

Þetta var á árunum 1996-1997 og þá var Kaupþing lítið verðbréfafyrirtæki með um þrjátíu starfsmenn en ég var í forsvari fyrir fjárstýringuna og var þar af leiðandi hluti af því lykilteymi sem byggði upp bankann. Við tóku rosalega spennandi og skemmtileg ár þar sem við uxum og stækkuðum og urðum að stórum banka með nokkur þúsund starfsmenn og starfsemi í fleiri löndum.

Það var rosalega skemmtilegur og fjölbreyttur tími þar sem við vorumstöðugt að takast á við nýjar áskoranir og fyrirtækið breyttist ekki ár frá ári heldur mánuði frá mánuði. Ég var framkvæmdastjóri fjárstýringar Kaupþings í 10 ár og fór svo til London og varð aðstoðarforstjóri Kaupþings í London en í árslok 2006 ákvað ég loks að söðla um og sagði skilið við bankann.

Mér fannst fjármálageirinn ekki eins áhugaverður lengur og það var margt í honum sem mér hugnaðist ekki. Það má kannski segja að „partýið“hafi verið orðið aðeins of mikið og ég ákvað því að stíga út. Ég var sem fyrr segir staðsett í London og þessi kúltúr var alls ekkert bara bundinn við íslensku bankana, heldur fjármálageirann eins og hann lagði sig á þessum tíma.“

Viðtalið í heild sinni má lesa í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.