Eigandi flugeldasölu í húsnæði sem fengist hefur bráðabirgðaleyfi til að opna gistiskýli fyrir hælisleitendur í segir umhverfisráðherra brjóta á mannréttindum sínum að því er Morgunblaðið greinir frá.

Björt Ólafsdóttir starfandi umhverfisráðherra segist enn vera að kynna sér málefni flugeldasölu sem mun þurfa að víkja úr húsnæði sínu við Bíldshöfða vegna leyfis sem eigandi hennar segir umhverfisráðherra hafa veitt til að í húsnæðinu megi innrétta gistiskýli fyrir hælisleitendur.

Magnús Árnason, eigandi flugeldasölunnar Gullborgar við Bíldshöfða 18 segist halda ákvörðun ráðherrans vera brot á mannréttindum og eignarétti sínum.

Ekki í samræmi við boðaða stjórnsýsluhætti

„Þetta er náttúrulega ólöglegt. Ég skil ekki að einhver geti fengið leyfi til að fara inn í húsnæði og bola annarri starfsemi út,“ segir Magnús í samtali við Morgunblaðið en fjölmargir rekstraraðilar í húsnæðinu hafa mótmælt ákvörðuninni um opnun gistiskýlis fyrir hælisleitendur í húsnæðinu, og sagt hana munu lækka fasteignaverð hjá sér.

„Flugeldar eru hættulegur varningur og því samþykkir brunaeftirlitið ekki að gisting og flugeldasala séu á sama stað.“ Magnús segir eiganda efri hæðarinnar hafa reynt að lauma ósk um breytingu á deiliskipulagi í gegn með umsókn í sumar.

„Því var hafnað hjá skipulagsráði þar sem það væri önnur starfsemi í húsinu. Það þarf samþykki allra,“ segir Magnús sem segir eiganda efri hæðarinnar þá hafa kært úrskurðinn.

„En í millitíðinni fer hann í Björt Ólafsdóttur og fær hana til að gefa út bráðabirgðaleyfi á þessa starfsemi sína [...] Þetta er alls ekki í samræmi við það sem hún hefur boðað í stjórnsýslunni. Hún er að brjóta lög á öðrum eigendum í húsinu, hvort sem hún gerir sér grein fyrir því eða ekki.“