Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri sölusviðs Símans, segir óeðlileg tengsl milli auglýsingasölu og fréttaflutnings hjá Ríkisútvarpinu. Fjölmiðlanefnd hafi hinsvegar eyðilagt kæru hans með því að senda hana beint til RÚV, en taka málið ekki fyrir. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í morgun.

Magnús segist hafa fengið símtal þess efnis að Hafnartorg hygðist ekki auglýsa hjá Símanum því fyrirtækið ræki ekki fréttastofu „og ætlun auglýsenda væri að komast að í fréttum.“

Hann segir frétt RÚV um Hafnartorg 1. október endanlega staðfesta „óheppileg og reyndar ólögleg tengsl auglýsingasölu og dagskrárgerðar hjá RÚV,“, en fréttin hafi birst í kjölfar nýrrar og dýrrar auglýsingar um Hafnartorg hjá ríkismiðlinum.

Magnús segir að sá aðskilnaður sem eigi að vera milli fréttaflutnings og auglýsinga sé ekki til staðar hjá RÚV, en því hefur RÚV vísað á bug og sagt ásakanirnar atvinnuróg.