Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, talaði um að orðræða stjórnarandstöðunnar væri hræsni í ljósi kjaraskerðingu bótaþega síðustu ríkisstjórnar.

„Þegar menn, sem settu Íslandsmet, ef ekki heimsmet, í kjaraskerðingu bótaþega, koma í ræðustól þingsins og saka þingmenn í stjórnarmeirihlutanum um siðleysi og mannvonsku, raskar það ró minni,” segir Brynjar.

Í uppfærslu á Facebook-síðu sinni  segir Brynjar meðal annars að:

Fyrsta verk núverandi ríkisstjórnar þegar hún tók við um sumarið 2013 var að taka til baka að mestu þær kjaraskerðingar sem vinstri stjórnin stóð fyrir vorið 2009.

Vinstri stjórnin hefur afsakað sig með því að hún hafi staðið frammi fyrir afar erfiðum verkefnum í kjölfar hrunsins. Ekki vil ég gera lítið úr þeim erfiðleikum en þá var enn mikilvægara en ella að forgangsraða takmörkuðum tekjum ríkisins.

Brynjar talar um að kostnaðarsöm gæluverkefni vinstri stjórnarinnar hafi verið í forgangi fram yfir að gæta að þeim sem höllum fæti standa:

Í stað þess að gæta að þeim sem höllum fæti stóðu setti vinstri stjórnin önnur kostnaðarsöm verkefni í forgang. Má þar helst nefna aðildarumsókn í ESB og breytingar á stjórnarskránni en af einhverjum óskiljanlegum ástæðum náði sú ríkisstjórn að telja mörgum trú um að stjórnarskráin væri helsta ástæðan fyrir hruni fjármálakerfisins og leiðin út úr kreppunni væri aðild að ESB og upptaka evru. Sennilega hefur engin ríkisstjórn á lýðveldistímanum tekið jafn rangar og vitlausar ákvarðanir.

Einnig segir Brynjar að það sé rangt af stjórnarandstöðuflokkunum að saka ríkisstjórnina um mannvonsku.

Hið rétta er að kjarabætur bótaþega hafa fylgt þróun launa, sem vel að merkja er ekki sjálfsagt með hliðsjón af gildandi lögum. Ástæðan fyrir því að hækkun bóta er ekki afturvirk er sú að bótaþegar fengu 3% hækkun í janúar sem launþegar fengu ekki. Sú hækkun og 9.7% hækkun núna um áramót jafna þetta út. Aðalatríðið er að kjarabætur bótaþega hafa fylgt launavísitölunni og því fjarri lagi að halda því fram að bótaþegar hafi setið eftir.