Sala á nýjum heimilum í Bandaríkjunum féll í ágúst um 8,3% og hefur ekki verið minni síðan sumarið 2000 samkvæmt hagvísum frá viðskiptaráðuneyti landsins. Þetta er breyting frá því mánuðinum áður en þá jókst hún um 3,8%. Lækkunin var meiri en margir höfðu búist við og fyrr í vikunni höfðu hagvísar sýnt 4,3% lækkun á notuðu húsnæði.

Jafnframt lækkaði fasteignaverð í ágúst. Miðgildi þess verðs sem íbúðarhúsnæði seldist á var 225.700 þúsund Bandaríkjadalir og er það lækkun um 7,5% á ársgrundvelli og er um að ræða mestu lækkun í 37 ár. Meðalverð húsnæðis var 292 þúsund dalir og er það lækkun um átta prósent á ársgrundvelli og er það mesta lækkunin á fasteignamarkaðnum í 17 ár. Ástandið er ólíkt eftir landshlutum en salan minnkaði milli mánaða í suðurríkjunum og vesturríkjunum. Hinsvegar jókst hún norðausturhluta Bandaríkjanna og í miðvesturríkjunum.

Fram kemur í frétt Reuters-fréttastofunnar að 592 þúsund heimili voru til sölu á fasteignamarkaði í ágústmánuði eða 1,5% færri en í júli. Miðað við núverandi söluhraða á markaðnum myndi taka ríflega átta mánuði að selja allar eignirnar miðað við 7,6 mánuði. Fjöldi viðskipta með ný húsnæði hefur fallið um 21,3 prósent á ársgrundvelli.

Hagvísar um sölu á nýjum heimilum auk þeirra sem voru birtir fyrr í vikunni um mikinn samdrátt í fjárfestingu á varanlegum neysluvörum benda til samdráttar í hagkerfinu og mat flestra sérfræðinga er að bandaríski seðlabankinn lækki stýrivexti enn frekar á fundi sínum þann 30. október næstkomandi. Þrátt fyrir að hagvöxtur hafi mælst 3,8% á öðrum ársfjórðungi er talið víst að lausafjárþurrðin í kjölfar hrunsins á markaðnum með bandarísk undirmálslán hafi hamlað þeim vexti. Áhrif ástandsins á neyslu og heimila eru talin ráða úrslitum um hvort að hagkerfið renni inn í samdráttarskeið og að sex ára hagvaxtarskeiði sé að ljúka. Sérfræðingar horfa sérstaklega á þróun fasteignaverðs í þeim efnum sökum auðhrifa (e. wealth effect) þess á einstaklinga.