Sala á áfangastaði Icelandair í Norður-Ameríku hefur ekki verið í takt við aukið framboð á meðan eftirspurn eftir Evrópuflugi félagsins hefur verið mjög góð. Þetta kemur fram á vef Túrista .

Sætanýtingin í fluginu til Evrópu var því há eða 90,7% í síðasta mánuði. Hlutfallið var aðeins 81,9% í ferðum Icelandair vestur um haf og er það umtalsverð lækkun frá því í fyrra samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu.

Í júlí árin 2015, 2016 og 2017 var vægi flugferða til Norður-Ameríku rétt rúmur þriðjungur en í nýliðnum júlí var hlutfallið hins vegar komið upp í 42 prósent.

Í ár fór félagið jómfrúarferðir til bandarísku borganna Cleveland, Dallas, Kansas, Baltimore og San Francisco. Eina borgin í Evrópu sem bættist við leiðakerfið var Dublin.