Kristín Anný Jónsdóttir sölustjóri hjá Víkurverki, sem er eitt af stærstu fyrirtækjum landsins í sölu á hjólhýsum segir í Morgunblaðinu söluna vera að nálgast það sem hún var fyrir hrun.

„Þetta náði hápunkti fyrir hrun, en ég held að við séum búin að ná þeim hápunkti aftur. En árin rétt fyrir hrun voru mjög merkileg því að vöxturinn í sölu hjólhýsa var svo gífurlega mikill milli ára,“ segir Kristín Anný sem segir að ekki sé jafnmikið um að fólk kaupi á 70% lánum eins og áður.

„Undanfarið höfum við séð mikið af fólki sem keypti 2007 og er að endurnýja hjólhýsin sín, þó ekki á erlendum lánum líkt og áður fyrr.“ Samkvæmt tölum Samgöngustofu hafa 256 hjólhýsi verið nýskráð á landinu í ár, en á sama tíma í fyrra voru þau 241. Þar af hafa 94 þeirra verið nýskráð á síðustu 12 dögum svo veðurfarið virðist ekki hafa áhrif á söluna.

Hins vegar hefur sala á tjaldvögnum nánast þurrkast út, einungis eitt hefur verið nýskráð í ár, meðan þau voru 9 á sama tíma í fyrra. Ekkert fellihýsi hefur svo verið selt það sem af er þessu ári. Segir Kristín Anný að áhugasamir kaupi nú frekar minni og ódýrari hjólhýsi en þess háttar annars konar tengivagna.