Kaup Magma Sweden á tæplega 1,5% hlut fjögurra sveitarfélaga í HS Orku á 475 milljónir króna eru í öllum megin atriðum frágengin.  Magma Sweden er að fullu í eigu kanadíska félagsins Alterra Power, sem áður hét Magma Energy.  Ásgeir Margeirsson, forstjóri dótturfyrirtækis Alterra á Íslandi, segir einungis frágangsatriði eftir í málinu.

Þegar viðskiptunum verður lokið mun Magma Sweden eiga 75% í HS Orku en Jarðvarmi slhf., samlagsfélag í eigu 14 lífeyrissjóða, 25%.

Tilkynnt var um að sveitarfélögin fjögur hefðu samþykkt að selja eignarhlut sinn í HS Orku í lok maí. Í tilkynningu til Kauphallar vegna þessa var tekið fram að viðskiptunum ætti að ljúka fyrir 9. júní 2011, sem er í dag.

Kaupin voru ákveðin á sama tíma og  Jarðvarmi keypti  25% hlut í HS Orku af Magma Sweden á 8,1 milljarð króna. Til viðbótar fær Jarðvarmi kauprétt á frekari hlutum sem gæti tryggt því 8,4% hlut í HS Orku til viðbótar fyrir 4,7 milljarða króna. Þá  hefur verið samið um að Jarðvarmi eigi forgang að öllu nýju hlutafé í HS Orku sem boðið verður til sölu sem nemur allt að 50% hlutafjár í fyrirtækinu. Því gætu lífeyrissjóðir eignast helmingshlut í HS Orku samkvæmt samningunum sem skrifað var undir í liðinni viku.