Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, segir ekkert nýtt vera að frétta af mögulegum kaupum erlendra aðila á Íslandsbanka. Fréttir bárust af því að erlendir aðilar væru í viðræðum við Íslandsbanka fyrr á árinu en í viðtali við Reuters í júní sagði Steinunn að enginn erlendur kaupandi væri í hendi.

„Nú erum við bara að fókusera fyrst og fremst á nauðasamninga og að undirbúa þá í samræmi við samkomulag kröfuhafa og stjórnvalda. Hitt hefur bara sinn gang,“ segir Steinunn við Viðskiptablaðið.

Hún segist ekki hafa skoðun á því hvort að það sé betra eða verra að selja bankann til erlendra aðila. Skyldur slitastjórnarinnar séu að hámarka verðmæti eigna og koma þeim í verð.