Salvör Nordal sem áður var stjórnarmaður í Högum tók nýverið við embætti umboðsmanns barna. Samkvæmt lögum er umboðsmanni barna óheimilt að hafa með höndum önnur launuð störf. Því hefur Salvör sagt sig úr stjórn Haga. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að úrsögnin taki gildi frá og með deginum í dag.

Salvör var fyrst kjörin í stjórn Haga þann 5. júní 2014. Hún er með Ph.D.-gráðu í heimspeki frá Háskólanum í Calgary, M.Phil í Social Justice frá Háskólanum í Stirling og B.A.-gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands. Salvör var áður forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands og hefur sinnt því starfi frá árinu 2001. Salvör hefur starfað sem háskólakennari frá árinu 1998, var í vinnuhópi um siðferði og starfshætti í tengslum við Rannsóknarnefnd Alþingis um fall bankanna, formaður Stjórnlagaráðs 2011, framkvæmdastjóri Íslenska dansflokksins 1989-1994 og framkvæmdastjóri Listahátíðar 1986. Auk þess hefur Salvör setið í Fjölmiðlanefnd frá árinu 2011 og sinnt margs konar fjölmiðla- og trúnaðarstörfum.

Eftirfarandi skipa þá stjórn félagsins:

  • Kristín Friðgeirsdóttir, stjórnarformaður
  • Sigurður Arnar Sigurðsson, varaformaður
  • Erna Gísladóttir, meðstjórnandi
  • Stefán Árni Auðólfsson, meðstjórnandi