Átta þingmenn hafa lagt fram fram þingsályktunartillögu um fríverslunarsamning við Japan. Yrði hún samþykkt á Alþingi væri ríkisstjórninni falið að hefja undirbúning fríverslunarsamnings við Japan á grundvelli þess að japanska ríkisstjórnin hyggst auka hlut fríverslunar í millríkjaviðskiptum.

Að sögn Bolla Thoroddsen, formanns Verslunarráðs Íslands í Japan, hefur viðskiptasamband Íslands og Japans aldrei verið betra. „Það vita ekki allir að Japan er stærsta viðskiptaríki Íslands utan Evrópu og Bandaríkjanna,“ segir hann.

„Fjöldi japanskra ferðamanna hefur sem dæmi aldrei verið meiri. Athyglisvert er að japanskir ferðamenn koma helst utan hefðbundins ferðamannatíma, þ.e. yfir vetrarmánuði vegna t.d. norðurljósa. Mögulega bestu ferðamenn sem til Íslands koma. Þá fara um 60-70% af heildarútflutningi æðardúns til Japan svo dæmi sé tekið. Helmingur alls útflutnings Íslands til Asíu fer til Japan og eftir hrun útflutnings til Rússlands hefur mikilvægi Japan aukist enn frekar.“

Bolli segir að Verslunarráð Íslands í Japan hafi lengi barist fyrir fríverslunarsamningi milli Japan og Íslands og bætir því við að nú væri gráupplagt á 60 ára afmæli stjórnmálasamstarfs landanna tveggja að hefja formlega slíkar viðræður. Hann segir að samningurinn gæti komið til með að hafa mikil áhrif.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .