Í fjárfestingunni felast tækifæri, en hún er ekki áhættulaus. Allra síst eftir svo mikinn og öran vöxt í fjárfestingu síðustu ára, sem kostar sitt að standa straum af. Þar hafa margir spennt bogann hátt í takt við tækifærin, en eru sennilega ekki allir með mikið borð fyrir báru ef þeir þurfa skyndilega að sigla krappari sjó minni eftirspurnar og síaukins framboðs. Jafnvel þó svo að ekki væri nema um smávægilegan samdrátt að ræða gæti sú röskun reynst ákaflega afdrifarík fyrir þjóðarbúið allt.

Það blasir við að undir þeim kringumstæðum mega menn ekki við miklu. Í því samhengi má nefna hótelgistingu á höfuðborgarsvæðinu, þar sem menn hafa vanist því undanfarin ár að herbergjanýtingin sé rúmlega 80% að jafnaði yfir árið og fjárfesting í hótelbyggingum miðast að miklu leyti við slíkar forsendur. Þola þær fjárfestingar mikil frávik frá því? Eða þess vegna tiltölulega lítil?

Án þess að það hafi óyggjandi forspárgildi er óþægilegt að vita til þess að herbergjanýting á höfuðborgarsvæðinu var 83% í janúar 2017 en 73% í janúar í fyrra. Hún var 66% í janúar síðastliðnum. Þegar við bætist ólga á vinnumarkaði, skæruverkföll og annað slíkt, er rétt að vera við öllu búin. Vel er þekkt hversu grátt vinnudeilur léku gamalgróna franska ferðaþjónustu fyrir nokkru, en hún hefur í raun ekki náð sér á strik síðan. Framlög hennar til VLF í Frakklandi eru aðeins 3,7% (9,1% beint og óbeint). 4,3% starfanna eru í ferðaþjónustu (aðeins 5,8% bein og óbein), Þar eru að auki aðeins um 28% tekna ferðaþjónustu frá erlendum ferðamönnum, en hlutfallið er nánast öfugt á Íslandi, þar sem 73% teknanna koma frá útlendingum.

Það er örstutt síðan íslenska ferðaævintýrið hófst og þó að „vörumerkið“ Ísland sé gott, þá er það ekki gróið. Við bætist að fyrir tiltölulega stóran hluta erlendra ferðamanna er Ísland „einnota“, flestir þeirra láta sér nægja að koma einu sinni. Þegar það er allt saman tekið, hinn öri vöxtur og mikla fjárfesting, sem ekki hefur enn verið nema að litlu leyti endurheimt, að viðbættu ótryggum gæftum og blikum á lofti, blasir við að ferðaþjónustan má ekki við frekari ágjöf.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .