Landsframleiðsla á fyrstu þremur mánuðum ársins jókst að raungildi um 5% frá sama ársfjórðungi í fyrra - og var því hagvöxtur 5% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Það sem vakti hins vegar athygli erlendra fjölmiðla var að árstíðaleiðrétt landsframleiðsla dróst saman um 1,9 prósentustig milli fjórða ársfjórðungs og fyrsta ársfjórðungs 2017.

Ekki er alvanalegt að erlendir fjölmiðlar skipti sér mikið af fregnum af árstíðaleiðréttri landsframleiðslu, en vegna einstakra hagvaxtatalna er hagvöxtur á Íslandi orðinn að fréttaefni erlendis á ný. Í frétt Financial Times sem byrjar einfaldlega á orðinu; „Ouch“ er bent á að samdrátturinn á milli ársfjórðunga er sá fyrsti í fjóra ársfjórðunga og sá versti frá árinu 2014. Hagvöxtur á fjórða ársfjórðungi 2016 nam 11,3 prósentum en í fyrra var hagvöxtur 7,2 prósentum.

Einnig veitti breska dagblaðið The Times þessari þróun eftirtekt, en í grein blaðsins kemur fram að samdrátturinn bæri þess merki að Íslendingar þurfi ekki að hafa eins miklar áhyggjur af því að efnahagurinn ofhitni á nýjan leik. Dagblaðið bendir jafnframt á að laun hafi hækkað, húsnæðisverð hafi hækkað gífurlega og að atvinnuleysi sé komið undir 3 prósentustig.