Gistinætur á hótelum í júli voru 466.100 sem er 2% aukning á milli ára. Um 53% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu, sem er 1% aukning miðað við júlí 2016. Gistinætur á Suðurnesjum voru 35.200, sem er 63% aukning frá fyrra ári, en einnig var 6% aukning á Suðurlandi, þar sem gistinætur voru 92.400.

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands um gistinætur kemur þó einnig fram að samdráttur hefur orðið víða á landsbyggðinni í gistinóttum, til að mynda voru gistinætur á Vesturlandi og Vesfjörðum 26.700 talsins sem er fækkun um 14%, en einnig fækkaði gistinóttum um 9% á Norðurlandi og 7% á Austurlandi samanborið við júlí 2016. Sérfræðingar og aðilar í ferðaþjónustu hafa bent á að þessi þróun gæti átt sér stað þegar ferðahegðun ferðamanna breytist.

Dvelja skemur og fara styttra

Bent hefur verið á að styrking krónunnar - sem hefur vissulega minnkað upp á síðkastið en bítur þó enn - hafi haft þau áhrif að ferðamenn dvelja skemur og fara styttra. Hagfræðideild Landsbankans hefur til að mynda tekið saman gögn um gistinætur á hvern ferðamann, en sú tala hefur dregist saman fjórtán mánuði í röð. Í júní var fjöldi gistinátta á hvern ferðamann 1,7 og líklegt er að samdrátturinn sé enn meiri í júlí.

Í nýlegri umfjöllun Viðskiptablaðsins um gistinætur ferðamanna sagði Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur hjá Hagfræðideild Landsbankans: „Við höfum mjög lítið séð áhrif sterkari krónu á komur ferðamanna. Það var metvöxtur í komu ferðamanna í fyrra, á sama tíma og metstyrking var á krónunni. Ferðamenn breyttu frekar neyslumynstrinu. Þeir reyna að draga úr neyslu og dvelja skemur. Þegar dvalalengdin styttist þá gefur það minna svigrúm til þess að fara út á land. Því lengur sem þú þarft að fara frá höfuðborgarsvæðinu, þeim mun lengur þarftu að dvelja að öllu óbreyttu,“ þessar tölur renna styrkari stoður undir þessa spá.

24% aukning á tólf mánaða tímabili

Á tólf mánaða tímabili, frá ágúst 2016 til júlí 2017 var heildarfjöldi gistinátta á hótelum tæplega 4,2 milljónir, sem er aukning um 24% miðað við sama tímabil árið áður.

Flestar gistinætur í júlí áttu Bandaríkjamenn með 126.600, þar á eftir komu Þjóðverjar með 74.400 og Bretar með 34.700, en íslenskar gistinætur í júlí voru 37.700. Gistinætur erlendra gesta voru 92% af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum, en þeim fjölgaði um 1% frá sama tíma í fyrra á meðan gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 13%.

Herbergjanýting í júlí 2017 var 89,7%, sem er lækkun um tvö prósentustig frá júlí 2016 þegar hún var 91,7%. Á sama tíma hefur framboð gistirýmis aukist um 6,4%, mælt í fjölda herbergja. Nýtingin var best á höfuðborgarsvæðinu, eða um 92,7%.