Sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins (ESB) fær falleinkunn í nýrri skýrslu sem gerð var fyrir framkvæmdastjórn sambandsins. Fram kemur í skýrslunni að stefnan hafi leitt til feykilegs ofveiðivanda og gert það að verkum að sjávarútvegur í aðildarríkjum ESB er einn sá óarðbærasti í heimi.

Skýrslan var unnin fyrir framkvæmdastjórnina af óháðum sérfræðingum frá Evrópu og Bandaríkjunum og ekki stóð til að efni hennar yrði gert opinbert. Hinsvegar hefur breska blaðið Financial Times skýrsluna undir höndum og sagði það frá efni hennar í gær. Í henni kemur fram að áhrif of mikillar veiðigetu, miðstýringarvaldsins í Brussel og sérhagsmunahópa hafi leitt til þess að fjölmargir fiskveiðistofnar eru að hruni komnir. Alvarleiki ástandsins endurspeglast meðal annars í þeirri staðreynd að framkvæmdastjórn ESB lýsti því yfir á miðvikudag að hún hygðist lögsækja sjö aðildarríki sambandsins fyrir að hafa veitt umfram útgefinn kvóta á túnfiski í Miðjarðahafinu og í austanverðu Atlantshafi í ár. Framkvæmdastjórnin bannaði túnfiskveiðar á dögunum vegna þessa og fram kemur í frétt Financial Times að líklegt er að Alþjóðatúnfiskveiðiráðið, sem gefur út kvóta á bláugga, muni refsa sambandinu með kvótaskerðingu þegar það kemur saman til fundar í nóvember.

Hvorki árangur í verndun né rekstri
Í skýrslunni segir að 80% af fiskistofnum innan lögsögu sambandsins séu ofveiddir samanborið við heimsmeðaltalið sem er 25%. Einn höfundanna, David Symes sem starfar við Hull háskóla á Bretlandi, segir að síðasta aldarfjórðung hafi söguleg hnignum átt sér stað í evrópskum sjávarútvegi og hann kennir getuleysi stjórnmála- og embættismanna til að standast þrýsting sérhagsmunahópa. Mike Sissenwine, fyrrum forseti Alþjóðahafrannsóknaráðsins, bendir jafnframt á að önnur þróuð ríki hafi náð mun betri árangri við að vernda fiskistofna og tryggja viðunandi afkomu sjávarútvegsins. Hann bendir á að meðalhagnaður fiskveiðiflota ESB sé 6,5% á meðan hann sé 40% á Nýja Sjálandi. Í skýrslunni kemur meðal annars fram sú skoðun hans að erfitt sé að ímynda sér að það gangi upp að miðstýringarvaldið í Brussel geti eitt farið með ákvörðunartökuvald fyrir jafn ósamstæðan geira og sjávarútveg allra aðildarríkja ESB.

Um þessar mundir er unnið að endurskoðun sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu ESB. Jose Borg, sem fer með fiskveiðimál í framkvæmdastjórn sambandsins, hefur viðrað hugmyndir um að vald verði fært til einhverskonar svæðaráða og einstaka ríkisstjórna jafnframt því sem hann vill efla eftirlit með fiskveiðum.

Fram kemur í frétt Financial Times að Fokian Fotiadis, sem er æðsti embættismaður fiskveiða innan sambandsins, hafi sent starfsfólki sínu skýrsluna í tölvupósti þar sem fram kom bann við að leka efni hennar út, en skýrslan mun verða grundvöllur að áðurnefndri endurskoðun á fiskveiðistefnu sambandsins.