Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lagt það til að stofnaður verði sameiginlegur innstæðutryggingasjóður á evrusvæðinu.

Framkvæmdastjórnin segir að fjármálakreppan hafi sýnt að slík áföll geti grafið undir trausti á fjármálamörkuðum og á bankakerfinu. Sameiginlegur innstæðutryggingasjóður muni styrkja við bankakerfið, styðja við vernd innstæðuhafa og efnahagslegan stöðugleika. Auk þess eigi það að draga úr áhættu í bankakerfinu.

Nýr innstæðutrygginasjóður mun byggjast á núverandi kerfi og innstæðuhafar munu njóta sömu verndar, upp að 100.000 evrum, um 14 milljónum króna. Bankar sem eru taldir vera áhættumeiri þurfa að greiða hærri greiðslur í sjóðinn og gefnar verða út reglur um áhættufjárfestingar, s.s. reglur um dreifingu fjárfestinga.

Framkvæmdastjórin áætlar að innstæðutryggingasjóðurinn muni taka gildi, og taka við af innlendum innstæðutryggingarsjóðum í þremur áföngum. Samkvæmt áætluninni mun innleiðing sjóðsins hefjast árið 2017 og hann mun að fullu taka við innlendu sjóðunum árið 2024.

Í upplýsingum frá Framkvæmdastjórninni kemur ekki fram hvort að ríkisábyrgð sé á skuldbindingum sjóðsins.