Miðjuhreyfing Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar fyrrverandi forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins sem sagði sig á dögunum úr flokknum hefur sameinað krafta sína við samvinnuhreyfingu Björns Inga Hrafnssonar.

Þetta kemur fram á facebook síðu Björns Inga, sem stofnaði á laugardag lénið samvinnuflokkurinn.is., en Sigmundur Davíð hafði í vor stofnað Framfarafélagið sem hann sagði á sínum tíma að ætti að vera hugmyndasmiðja fyrir Framsóknarflokkinn.

„Fremur en að dreifa kröftum framfarasinnaðs fólks tel ég mikilvægt að sameina það með samvinnu að leiðarljósi. Samvinnufólk ætlar því glaðbeitt að ganga til liðs við nýja miðjuhreyfingu Sigmundar Davíðs -- því það er verk að vinna og skammur tími til stefnu,“ segir Björn Ingi meðal annars sem kallar úrsögn Sigmundar vatnaskil.

„Ég fagna því mjög að við Íslendingar fáum aftur tækifæri til að kynnast framtíðarsýn hans sem stjórnmálaforingja, enda geta flestir verið sammála um þann mikla árangur sem náðist fyrir land og þjóð undir hans forystu á sínum tíma.“