Stjórn Sameinaða lífeyrissjóðsins hefur ákveðið að rýmka lánsrétt á sjóðfélagalánum. Nú eiga allir sem greitt hafa iðgjöld í lífeyrissjóðinn rétt á láni frá sjóðnum.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sjóðsins.

Breytilegir vextir sjóðsins eru 3,3%, en þeir voru nýlega lækkaðir. Fastir vextir sjóðfélagalána eru 3,7%.

Lántökugjald helst þó óbreytt í 15 þúsund krónum óháð lánsfjárhæð. Sé tekið lán að fjárhæð 20 milljónir króna jafngildir það 0,075% lántökugjaldi.

Ekkert uppgreiðslugjald er á sjóðfélagalánum. Lánstími er allt að 40 ár og veðhlutfall allt að 65%.