Nú hafa stjórnir Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa lífeyrissjóðs samþykkt að hefja könnunarviðræður um sameiningu sjóðanna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá sjóðunum. Hugmynd um slíkt hefur áður verið reifuð óformlega en ekki fyrr en nú hefur verið samþykkt að láta reyna á sameininguna með svo formlegum hætti.

Sameinaði er fimmti stærsti lífeyrissjóður landsins, ef miðað er við hlutfall hreinna eigna lífeyrissjóða, og Stafir er sá níundi stærsti. Sameinaðir yrðu þeir fjórði stærsti lífeyrissjóðurinn - með um 10% hreinna eigna lífeyrissjóðanna eða 310 milljarða króna.

Sameinaði lífeyrissjóðurinn var stofnaður árið 1992 og samanstendur af lífeyrissjóðum byggingarmanna, málm- og skipasmiða, bókagerðarmanna, garðyrkjumanna, múrara og fleiri. Stafir samanstendur af starfsmönnum fyrirtækja sem áður tilheyrðu Sambandi íslenskra samvinnufélaga auk félagsmanna í Rafiðnaðarsambandi Íslands og Matvæla- og veitingafélagi Íslands.