*

fimmtudagur, 25. apríl 2019
Innlent 10. júní 2018 16:05

Sameinast inn í Nasdaq CSD

Magnús Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Nasdaq verðbréfamiðstöðvar, segir hana stefna að sameiningu við Nasdaq CSD.

Gunnar Dofri Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Magnús Ásgeirsson, framkvæmdastjóri verðbréfamiðstöðvar Nasdaq, segir  stefnt að mjög auknu samstarfi við Nasdaq CSD. Magnús var viðmælandi VIðskiptablaðsins í vikunni.

„Við sjáum fyrir okkur, eftir að hafa unnið með þeim í þó nokkurn tíma í þessu verkefni, að sameinast inn í þann rekstur. Stjórnir félaganna hafa samþykkt að fara þessa leið. Með því ætlum við að tryggja að við séum hluti af framtíð verðbréfamiðstöðvar Nasdaq í Evrópu. Við ætlum ekki að vera hérna ein á Íslandi að reka okkar kerfi heldur vera partur af stóru myndinni. Framtíðarstefna Nasdaq CSD er að sækja í auknum mæli inn í Evrópu. Hingað til hafa verðbréfamiðstöðvar verið mjög staðbundnar. Eðli rekstrarins og regluverksins hefur verið þannig. Kröfurnar hafa líka verið þess eðlis að þær hafa verið undir ólíku regluverki og fastar í sínu umhverfi. En eins og með aðra innviði á fjármálamarkaði er verið að opna landamæri og núna skapast tækifæri fyrir verðbréfamiðstöðvar.“

Þetta gerist að sögn Magnúsar þannig að útibú Nasdaq CSD verður rekið hér á landi. „Við sjáum fyrir okkur í þessu sambandi gríðarleg tækifæri fyrir íslenskan markað. Það er grundvallarbreyting fyrir íslenskan verðbréfamarkað og ein stærsta breytingin sem hefur orðið síðustu tuttugu ár. Núna erum við föst í að gefa út og gera verðbréf upp í krónum.“

Magnús segir að þrátt fyrir það séu útlendingar mjög spenntir fyrir íslenskum verðbréfum í krónum. „Þeir vilja koma hingað inn og geta auðveldlega átt viðskipti með íslensk verðbréf. Vandamálið hefur verið uppgjör og afhending verðbréfa. Það hefur verið áhættusamt og gert með hætti sem útlendingar þekkja ekki til. Við ætlum að samræma ferlana Evrópukröfum. Evrópskir fjárfesta munu með því koma inn í umhverfi sem þeir þekkja til og fá tækifæri til að gera upp sín viðskipti með hætti sem samræmist því umhverfi sem þeir eru í nú þegar. Það gerir það að verkum að þeir hafa væntanlega aukinn áhuga á að koma hingað inn. Grundvallaratriði í þessu er að núna geta erlendir fjárfestar ekki gert upp viðskipti sín með samtímis afhendingu peninga og verðbréfa. Það er grundvöllur í allri umgjörð í Evrópu. Þú afhendir ekki verðbréf nema þú getir fengið peninga samtímis. Að öðrum kosti skapast áhætta. Nýja kerfið mun bjóða upp á þetta,“ segir Magnús.

Geta gert upp í evrum

„Þar að auki tengjumst við kerfi sem gerir upp öll verðbréfaviðskipti í evrum. Þetta skapar okkur tækifæri til að bjóða upp á evruútgáfu og skráningu og uppgjör verðbréfa í evrum. Þannig gætu íslensk félög gefið út hluta- og skuldabréf í evrum. Það er eitthvað sem við vitum að íslenskir útgefendur sækjast eftir. Þeir vilja fjármagn erlendis frá en þurfa núna að sækja það með skráningu í útlöndum.“

Þetta hlýtur að hafa áhrif á hvaða vexti fyrirtæki geta fengið.

„Ég geri ráð fyrir að þetta hafi áhrif á fjármögnunarmöguleikana erlendis og vextina sem útgefendur fá á sín lán. Þar að auki kemur möguleikinn á að gefa út hlutabréf í annarri mynt. Íslensk fyrirtæki hafa haft á því áhuga í lengri tíma, sérstaklega fyrirtæki með tekjur erlendis frá, að skrá verðbréf sín í erlendri mynt. Í dag einbeitum við okkur að evrunni en samtímis eru góðar líkur á að Nasdaq CSD muni sækja inn í uppgjörskerfi annarra seðlabanka. Það er grundvallarforsenda að verðbréfamiðstöð tengist inn í peningauppgjör líka – þú þarft að geta afhent peningana. Þá sjáum við fyrir okkur skandinavísku myntirnar þannig að það verði möguleiki á að gefa út verðbréf í sænskum, dönskum og norskum krónum og gera upp viðskipti á skilvirkan og tryggan hátt í þessum myntum. Með þessu erum við að reyna að breikka fjárfestagrunninn á Íslandi. Í dag erum við í lokuðu mengi en vitum af áhuga erlendra fjárfesta og íslensk fyrirtæki vilja leita í þennan brunn. Núna er ekki vandamálið að eiga viðskiptin. Uppgjörið og afhending verðbréfa og peninga er hins vegar ákveðin hindrun. Þetta er óásættanleg óvissa fyrir erlenda fjárfesta og með því að ryðja þessu úr vegi sjáum við fyrir okkur að þessir fjárfestar geti komið hér inn með auðveldari hætti. Á sama tíma skapast tækifæri fyrir stærri útgefendur að vera ekki einungis í íslenska fjárfestamenginu heldur að sækja sitt fjármagn til erlendra aðila.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim