Á morgun fimmtudag verður sameiginlegur listi fimm stjórnmálaflokka auk óháðra kynntur á fundi í Hönnunarsafni Íslands á Garðatorgi í Garðabæ. Að framboðinu standa Björt framtíð, Samfylking, Píratar, Viðreisn, Vinstir græn og óháðir.

Í Garðabæ er Sjálfstæðisflokkurinn með 7 af 11 bæjarfulltrúum, en Björt framtíð er með 2, Samfylkingin 1 og Listi fólksins í bænum 1. Halldór Jörgensson og Guðrún Elín Herbertsdóttir voru kjörin í bæjarstjórn fyrir Bjarta framtíð í síðustu sveitarstjórnarkosningum og Steinþór Einarsson fyrir Samfylkinguna.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá hefur María Grétarsdóttir, oddviti Lista fólksins í bænum, sem fram fór undir listabókstafnum M í síðustu sveitarstjórnarkosningum, gengið til liðs við Miðflokkinn.

Mun hún því áfram leiða M listann í bænum, þó undir öðrum formerkjum. Þannig er ljóst að kjósendur í Garðabæ hafa um þrjá valkosti að minnsta kosti að ræða í bæjarstjórnarkosningunum í vor.