Fyrirtækin Skaginn, 3X Technology og Þorgeir & Ellert verða hér eftir kynnt undir einu sameiginlegu vörumerki, Skaginn 3X, að því er segir í fréttatilkynningu frá félögunum.

Fyrirtækin, sem eru staðsett á Akranesi, Ísafirði, Reykjavík og Akureyri, hafa verið í miklum vexti á síðastliðnum árum og verið áberandi með tækninýjungar á sviði matvælaiðnaðar, sérstaklega í sjávariðnaði. Heildar starfsmannafjöldi er vel á annað hundrað og heildarvelta fyrirtækjanna var um fimm milljarðar árið 2016.

„Þessar breytingar eru fyrst og fremst hugsaðar til þess að einfalda og sameina markaðsstarf fyrirtækjanna og auðvelda samskipti við viðskiptavini. Undir einu merki skapast sterkari vitund um starf okkar og þær vörur sem við framleiðum. Þannig getum við hagrætt í markaðsstarfi og gert það enn árangursríkara, ásamt því að styrkja stöðu og sérkenni starfsstöðvanna“ segir Ingólfur Árnason framkvæmdarstjóri Skaginn 3X.

Í tilefni af sameinuðu merki félaganna hefur ný sameiginleg heimasíða verið sett í loftið http://skaginn3x.com .

Einnig er hægt að lesa um málið á Fiskifréttum .