Þingsályktunartillaga um innleiðingu Evróputilskipunar um fjármálaþjónustu var samþykkt á Alþingi í morgun með 31 atkvæði gegn 18, 14 þingmenn voru fjarstaddir.

Stofnun sameiginlegra eftirlitsstofnana um fjármálamarkaðinn

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra bar þingsályktunartillöguna upp sem felur í sér að inn í EES samninginn falli reglugerð Evrópuþingsins og Evrópuráðsins um að koma á fót sameiginlegum eftirlitsstofnunum sem nái yfir Ísland sem aðildarríkis að Evrópska efnahagssvæðinu.

Um er að ræða Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina, Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunina og Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunina.

Samevrópsk innheimta á fjármálafyrirtæki

Einnig felur þetta reglur Evrópusambandsins um stofnun Evrópsks kerfisáhætturáðs sem sér um þjóðhagsvarúðareftirlit með fjármálakerfinu, auk reglna um rekstraraðila sérhæfðra sjóða og hvaða upplýsingum veita þurfi eftirlitsstofnununum, inn í EES samninginn.

Auk þess felur þetta í sér upptöku reglna ESB um skortsölu og tiltekna þætti skuldatrygginga, um OTC-afleiður, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, breyttar reglur um lánshæfismatsfyrirtæki auk þeirra gjalda sem evrópskar eftirlitsstofnanir geta innheimt af slíkum fyrirtækjum.