Þrátt fyrir nálega helmingun fylgis Samfylkingar frá síðustu sveitarstjórnarkosningum missir flokkurinn einungis einn borgarfulltrúa miðað við niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar Fréttablaðsins .

Ástæðan er sú að samkvæmt sveitarstjórnarlögum sem samþykkt voru á tímum síðustu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna fjölgar borgarfulltrúum úr 15 í 23 eftir næstu kosningar.

Fara úr 31,9% í 17%

Í síðustu kosningum fékk Samfylkingin, undir forystu Dags B. Eggertssonar oddvita og borgarstjórnarefnis þáverandi borgarstjórnarmeirihluta 31,9% en fylgi flokksins er nú einungis rétt rúm 17% í borginni samkvæmt könnuninni.

Það er þó rúmlega þrefallt fylgi flokksins í borginni og á landsvísu í Alþingiskosningunum á dögunum þar sem flokkurinn fékk þrjá þingmenn kosna, en þar af var enginn þeirra af höfuðborgarsvæðinu.

Sjálfstæðisflokkur tvöfalldar fulltrúafjölda sinn

Samkvæmt könnunni var Sjálfstæðisflokkurinn stærstur með 31,9%, þar á eftir kemur Samfylkingin með 17,1%, síðan Vinstri grænir með 15,4%, Píratar með 14,6%, Björt framtíð með 13% og Framsóknarflokkurinn með 4%, en aðrir flokkar eru með samtals 3,9% fylgi.

Ef þessar niðurstöður myndu skila sér í kosningunum, og að teknu tilliti til fyrrnefndrar fjölgunar borgarfulltrúanna myndi Sjálfstæðisflokkurinn fara úr 4 fulltrúum í 8, Samfylkingin úr 5 í 4, Vinstri grænir færu úr 1 í 4, Björt framtíð færi úr 2 í 3, Píratar úr 1 í 3 og Framsóknarflokkurinn úr 2 í 1.

Þetta þýðir að núverandi borgarstjórnarmeirihluti myndi halda stjórn á borginni með 14 borgarfulltrúum.