Samfylkingin mælist með 6,5% kjörfylgi ef gengið væri til kosninga í dag samkvæmt nýrri könnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis um fylgi stjórnmálaflokka fyrir komandi alþingiskosningar. Flokkurinn hefur átt í uppdráttar á síðustu vikum og mánuðum. En í dag eru 9 dagar til kosninga.

Flokkurinn hlaut 12,9% atkvæða í alþingiskosningum 2013. Árið 2009 hlaut flokkurinn hins vegar 29,8% atkvæða. Könnunin var framkvæmd í gær og á mánudagskvöld segir í Fréttablaðinu. Þar er haft eftir Oddnýju Harðardóttur, formanni Samfylkingarinnar, að hún hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum með niðurstöðuna — en trúi því ekki að þetta verði niðurstaðan á kjördag.

Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar stærstir

Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærsti stjórnmálaflokkurinn, nú með 23,7% fylgi. Píratar eru eins þeir hafa verið undanfarnar vikur, næststærsti flokkur landsins með 20,7% fylgi. Munurinn á flokkunum tveimur í könnuninni er þó innan skekkjumarka.

Vinstri græn á flugi

Vinstrihreyfingin — grænt framboð, heldur áfram að bæta við sig fylgi og mælist með 19,2% og er því langtum stærri en næsti flokkur, sem er Framsóknarflokkurinn, sem mælist með 8,5% í könnuninni. Björt framtíð mælist hins vegar með 7,4% og næði mönnum inn á þing. Eftir Bjartri framtíð kemur Viðreisn með 6,6% fylgi ef gengið væri til kosninga í dag.

Minnsti flokkurinn á þingi

Samfylkingin væri því minnsti flokkurinn á þingi, með 6,5% fylgi, ef miðað er við niðurstöður þessarar könnunnar. Oddný leggur áherslu á að það séu vissulegu margir flokkar með svipaðar áherslur, sem ættu að geta unnið saman í viðtali við Fréttablaðið.

Ef að litið er til Þjóðarpúlsar Gallup og þróun á fylgi flokka, þá er fylgi Samfylkingarinnar í sögulegu lágmarki og hefur ekki mælst lægra, að minnsta kosti frá 2006. Þann 13. október, mældist fylgi flokksins 7,1% — en fylgi flokksins hefur hrapað á þessu kjörtímabili.

Flokkur fólksins bætir við sig

Flokkur fólksins bætir við sig talsverðu fylgi og mælist með 3,4% og nálgast því 5% markinu óðfluga. Könnunin var eins og áður er getið framkvæmd 17. og 18. október og hringt var í 1.303 manns. Þar af náðist í 801 samkvæmt lagskiptu slembiúrtaki. Alls tóku 68% þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar.