Stjórn Samherja hf.hefur samþykkt að skipta félaginu upp og aðskilja reksturinn hér á landi frá öðrum hlutum fyrirtækisins. Við skiptinguna mun einkahlutafélagið Samherji Ísland taka yfir hluta af eignum og skuldum Samherja hf.

Eins og segir í skiptingaráætlun, sem stjórn Samherja undirritar og Viðskiptablaðið hefur undir höndum, er um að ræða allan sjávarútvegsrekstur Samherja hf. á Íslandi og ásamt öllum eignum og skuldum sem honum tilheyra. Við skiptinguna fá hluthafar í Samherja hf. hluti í viðtökufélaginu Samherja Íslandi ehf. að nafnverði 172.246.417 í stað hlutabréfa að nafnverði 20.000.000 í Samherja hf. Undir skiptingaráætlun undirrita meðal annars þeir Þorsteinn Már Baldvinsson og Kristján Vilhelmsson.

Reikningsleg skipting Samherja hf. og Samherja Íslands ehf. skal miða við 1. janúar síðastliðinn samkvæmt skiptingaráætlun en við hana er gerður fyrirvari um tilskilið samþykki hluthafafundar. Skiptingin tekur gildi við þá staðfestingum.

Í yfirlýsingu endurskoðanda vegna skiptingarinnar kemur fram að það sé álit endurskoðanda að skiptingin leiði til sanngjarnrar og efnislega rökstuddrar niðurstöðu og að aðferðin við skiptinguna sé fullnægjandi. Þar kemur enn fremur fram að það sé mat endurskoðanda að við núverandi aðstæður og óvissu í sjávarútvegi sé erfitt að meta virði aflaheimilda og varanlegra rekstrarfjármuna.

Einnig er tekið fram að rétt sé að benda á að varðandi eignarhlutföll skipti matið á eignum ekki máli enda muni sömu hluthafar eiga beint og óbeint allt hlutafé í báðum félögunum í sömu hlutföllum og þeir eiga í Samherja hf. fyrir skiptingu. Það er einnig mat endurskoðanda að skiptingin rýrir ekki möguleika lánardrottna félagsins til fullnustu krafna sinna.