Haldinn var samningafundur í fiskveiðinefnd Íslands og Rússlands daganna 19.-20. febrúar. Umræðuefnið var að venju framkvæmd svokallaðs Smugusamnings frá 1999 milli Íslands, Noregs og Rússlands um þorskveiðar íslenskra skipa í lögsögu Noregs og í þessu tilviki í lögsögu Rússlands fyrir árið 2018.

Frá þessu segir í frétt á heimasíðu stjórnarráðsins.

Í samningnum er um tvenns konar kvóta að ræða. Annars vegar þann sem ekkert er greitt fyrir og svo hins vegar kvóta sem Ísland fær ef samningar takast um verð.

Samningar tókust um magn og verður heildarafli þorsks sem ekkert er greitt fyrir alls 4.409 tonn. Með þessu þorskmagni verður heimill meðafli 30% ofan á magn þorsks en þó má magn ýsu ekki nema meiru en 352 tonnum. Eftir er að ganga frá samningum um verð fyrir hinn svokallaða keypta kvóta en hann er í ár ákveðinn alls 2.646 tonn. Með honum fylgir einnig 30% meðafli, en þar eru takmörk á ýsu 265 tonn.

Þá er einnig hluti af samkomulaginu að Rússland fær 1.500 tonn af makríl til veiða á úthafinu af makrílkvóta Íslands.