miðvikudagur, 4. maí 2016
Innlent 1. júlí 2012 09:24

Ekki samið um „Stasi“ ákvæði gjaldeyrislaga

Síðustu dagarnar í þinginu voru dramatískir en undir lokin var samið um hvaða mál skyldu afgreidd og hver ekki

Gísli Freyr Valdórsson
Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir.
Haraldur Guðjónsson

Alþingi fór sem kunnugt er í sumarfrí í síðustu viku eftir að samningar tókust um þinglok á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Eins og venja er voru fjölmörg mál sem samþykkt voru á síðustu dögum þingsins en umræðan og átökin um breytingar á veiðigjaldi fór vart framhjá nokkrum manni. Umræðan stóð í tæpar 70 klst. enda um róttækt og ekki síður umdeilt frumvarp að ræða. 

Það var ekki fyrr en samningar tókust á milli ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar um þetta mál sem hægt var að ljúka þinginu. Fjölmörg mál biðu þá á hliðarlínunni sem ýmist voru samþykkt eða frestað. 

Fyrir áhugamenn um stjórnmál er óhætt að segja að þetta hafi verið nokkuð áhugavert þing, svo vægt sé til orða tekið. Á þeim 109 dögum sem þingið stóð voru samþykkt 95 lagafrumvörp (af 240) og 50 þingsályktunartillögur voru samþykktar (af 174). 

Eitt af þeim frumvörpum sem ekki fengu afgreiðslu var frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra um breytingar á gjaldeyrismálum. Frumvarpið fól að miklu leyti í sér að gengið skyldi enn lengra í að herða gjaldeyrishöftin en að sumu leyti fól það í sér auknar heimildir og ívilnanir til gjaldeyrisviðskipta, þó alltaf háð samþykki Seðlabankans. 

Það sem helst þótti umdeilt voru ákvæði sem fólu í sér í sér auknar heimildir Seðlabankans til að rannsaka einstaka mál, afla upplýsinga, auka eftirlit bæði með fyrirtækjum og einstaklingum og leggja á stjórnvaldssektir. 

Til gamans má geta þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins vísuðu alltaf í þessi ákvæði sem „Stasi-ákvæðin“ í umræðum sín á milli og við aðra þingmenn. Það lá ljóst fyrir að frumvarpið myndi að óbreyttu mæta mikilli andstöðu stjórnarandstöðunnar. 

Nánar er fjallað um þinglokin í sérstakri fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu og þau stóru mál sem ýmist voru samþykkt eða fengu ekki afgreiðslu þingsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.