Nýtt félag rétthafa í sjónvarpsog kvikmyndaiðnaði, FRÍSK, vinnur nú að gerð nýs samnings um notkun á skoðunarkerfi fyrir aldurs- og innihaldsmerkingar á kvikmyndum og öðru efni.

Forveri FRÍSK, SMÁÍS, gerði samning um notkun kerfisins við hollenska stofnun árið 2007 en stóð ekki við greiðslur upp á tugi þúsunda evra. SMÁÍS hefur nú verið úrskurðað gjaldþrota og Snæbjörn Steingrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri þeirra, veriðkærður til sérstaks saksóknara vegna meintra brota í starfi.

Hallgrímur Kristinsson er stjórnarformaður FRÍSK fyrst um sinn. Hann segir að SMÁÍS hafi í raun gengið frá sínum málum og endurnýjað samninginn við hollensku stofnunina NICAM þegar sá fyrri rann út í ágúst í fyrra.

„En eðlilega þar sem SMÁÍS er ekki lengur til er nú verið að vinna að nýjum samningi við stofnunina. Ég var í Amsterdam í síðustu viku og er að funda með öllum skoðunarmönnum til að ræða efni þessa nýja samnings. Það er ekki búið að skrifa undir en það eru komin drög og við erum í góðum viðræðum við þá,“ segir Hallgrímur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .