Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur (SVG) undirrituðu nýjan kjarasamning í gærkvöldi og gildir hann til tveggja ára, en félagið í Grindavík afturkallaði samningsumboð sitt til Sjómannasambandsins áður en skrifað var undir nýjan kjarasamning við sambandið.

Efni samningsins er sambærilegt því sem samið var um við Sjómannasamband Íslands, en SVG samdi einnig um sértaka línuuppbót að fjárhæð 120.000 kr. til handa tilgreindum sjómönnum á línubátum, en félagið hafði kallað eftir því að þeirra hlutur yrði bættur.

Verkföllum sjómanna frestað

Verkfalli félagsmanna Sjómannafélags Íslands var frestað kl. 15.00 í gær og verkfalli SVG er frestað frá og með deginum í dag, 16. nóvember kl. 14.00. Þetta er meðal þess sem fram kemur í fréttatilkynningu frá SFS.

„Þá var einnig áréttaður sérstakur forgangur á endurskoðun fjarskiptamála, með það að augnamiði að lækka fjarskiptakostnað sjómanna. Það er eðlileg og sanngjörn krafa í nútímasamfélagi að sjómenn geti átt örugg og regluleg fjarskipti og að kostnaður þeirra sé ekki úr hófi,“ segir í tilkynningunni.

Slysa- og veikindaréttur ekki skertur

„Að gefnu tilefni og vegna umræðu um slysa- og veikindarétt sjómanna, telur SFS rétt að árétta að þessi réttur hefur ekki verið skertur í þeim samningum sem gerðir hafa verið. Í nýgerðum kjarasamningum hefur aðeins verið lýst sameiginlegum markmiðum aðila um að við veikindi eða slys skipverja í skiptimannakerfum skuli þeir verða jafn settir fjárhagslega og ef ekki hefði komið til veikinda eða slyss. Það er miður ef ákvæði þessa efnis mátti misskilja.

Þegar viðræðum SFS og SVG var fram haldið í gær urðu aðilar ásáttir um að fella brott hlutaðeigandi ákvæði. Samhliða var gerð bókun þess efnis að réttindaumhverfi slysa- og veikindaréttar í skiptimannakerfum yrði tekið til skoðunar. SFS hefur lagt til að sambærileg breyting verði gerð á þeim kjarasamningum sem þegar hafa verið undirritaðir, þannig að enginn vafi leiki á því að enginn réttur er af sjómönnum tekinn í nýjum kjarasamningum.“

Fyrr um daginn undirrituðu SFS og Sjómannafélag Íslands einnig kjarasamning, sambærilegan þeim sem Sjómannasamband Íslands hafði áður gert, með þeirri breytingu sem hér hefur verið lýst varðandi slysa- og veikindarétt og hefur nú öllum verkföllum sjómanna hefur nú verið frestað. Kynningar á gerðum kjarasamningum og atkvæðagreiðslur fara fram á næstu dögum.