Oddur Steinarsson, læknir í Svíþjóð, segist skilja þá sem hafa áhyggjur af því að fjármálaöfl nái undirtökum í hluta heilbrigðiskerfisins með innkomu einkareksturs í heilsugæslukerfið. Oddur er framkvæmdastjóri slíkrar heilsugæslustofu í Gautaborg og segir árangurinn af samkeppni í heilsugæslu í Svíþjóð hafi gefist mjög vel.

Til að koma í veg fyrir að fjármálamenn næðu undirtökum í heilsugæslunni nefnir Oddur að hægt væri að gera það að skilyrði að lykilstarfsmenn ættu að minnsta kosti helming í hverri stöð. „Með því móti takmarkarðu verulega þessa hættu. Þjónustukannanir í Svíþjóð hafa leitt í ljós að ánægjan er mest með þær stöðvar þar sem lykilstarfsmenn eru meðal eigenda. Þessar stöðvar eru að mælast töluvert betur en stöðvar sem eru í eigu stærri keðja. Ég held í raun að það hefði átt að gera þetta að kröfu í Svíþjóð þegar þeir tóku upp þetta kerfi. En þetta er kosturinn við að fylgja í fótspor annarra. Það er hægt að bæta um betur það sem þeir hafa gert.“

Eitt af því sem margir hafa áhyggjur af þegar einkarekna heilbrigðisþjónustu ber á góma er að hún bjóði upp á að efnameira fólk geti greitt fyrir hraðari eða betri þjónustu. Oddur segir að breytingunum í Svíþjóð sé einmitt ætlað að koma í veg fyrir þetta.

„Þegar heilbrigðisþjónusta er orðin svo slæm að fólk fær ekki lengur út úr henni sem það vill eða þarf, þá mun efnameira fólk reyna að borga fyrir betri þjónustu, hvort sem það er heima eða í öðrum löndum. Sænska kerfið gengur ekki út á að búa til annað kerfi til hliðar við það opinbera, heldur að styrkja opinbera kerfið með samkeppni og fjölbreyttari rekstrarformum. Við viljum ekki tvískipt kerfi, heldur á opinbera kerfið að vera í lagi. Þetta snýst ekki um einkarekstur, heldur verktöku.“

Ítarlegt viðtal við Odd má lesa í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .