Samkeppniseftirlitið segist í tilkynningu ekki hafa sett Landsbankanum nein skilyrði fyrir sölu hluts bankans á kortafyrirtækinu Borgun. Þá hafi Landsbankinn selt hlut sinn áður en að sátt náðist milli deiluaðila og Samkeppniseftirlitsins.

Landsbankinn seldi hlut sinn í Borgun í nóvember 2014, en söluferlið var ekki formlegt og hluturinn ekki auglýstur. Vakið hefur athygli að Einar Sveinsson, föðurbróðir Bjarna Benediktssonar, auk annarra fjárfesta, hlutu kauprétt í söluferlinu. Eins og kunnugt er fer íslenska ríkið með 98% hlut í Landsbankanum.

Umræða hefur vaknað í kjölfar þess að fréttir bárust af yfirtökunni, en í tilefni hennar var frétt birt á vef Landsbankans í gær þar sem því var lýst yfir að aðalástæða þess að Landsbankinn hefði selt hlut sinn í Borgun hafi verið þrýstingur frá samkeppnisyfirvöldum um að koma á breytingum á greiðslukortamarkaði.

Samkeppniseftirlitið segist ekki hafa beitt þrýstingi

Þessu hafnar Samkeppniseftirlitið í tilkynningu sem send var frá stofnuninni í dag. Þar segir að eftirlitið hafi ekki sett Landsbankanum nein sérstök skilyrði fyrir sölu á hlut sínum - heldur hafi Landsbankanum og Íslandsbanka báðum verið gert að komast að samkomulagi um uppröðun eignarhalds hlutanna. Eins og segir í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins:

„Íslandsbanka er heimilt að leita samninga við Landsbankann um að annar bankinn kaupi út hlut hins eða um sölu á hlut beggja eða annars hvors til þriðja aðila.“

Þá hafði Landsbankinn auk þess selt hlut sinn í Borgun og Valitor áður en til sáttar kom milli Samkeppniseftirlitsins og bankans. Því hafi ekki verið neinn þrýstingur af hálfu eftirlitsins um að bankinn yrði að selja hlut sinn strax. Sala Landsbankans á hlutum sínum í Borgun var því alfarið á forræði og ábyrgð Landsbankans sjálfs.

Landsbankinn hagnast á yfirtökunni

Eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum síðustu daga munu kortafyrirtækin Valitor og Borgun hagnast umtalsvert á yfirtöku Visa International á Visa Europe. Hver og einn kortaútgefandi Visa fékk hlutdeild í Visa Europe þegar útgefandinn fékk leyfisveitingu hjá félaginu. Yfirtakan mun auka virði hlutanna sem Borgun og Valitor höfðu um allt að 20 milljarða króna.

Þá segir í frétt á síðu Landsbankans að bankinn muni hagnast um einhverja milljarða á yfirtökunni sjálfur vegna ákvæðis sem gert var í samningi um sölu hluta Landsbankans í Valitor. Arion banki mun þá hafa samþykkt að tryggja að greiðslur um viðskiptavalréttindi kæmu til með að ganga eftir.

Í tilkynningu Landsbankans segir að samið hafi verið um að Landsbankinn hlyti viðbótargreiðslur til samræmis við það sem Valitor eða Visa Ísland fengu, kæmi til þess að valréttur um viðskipti milli Visa Europe og Visa Inc. í Bandaríkjunum gengi eftir. Því muni Landsbankinn hagnast um þá milljarða sem Valitor hlýtur af yfirtökunni.