Ísland hækkar upp um eitt sæti í það 23. af samkeppnishæfustu hagkerfum heims meðan Bandaríkin lækka úr efsta sætinu í það þriðja. Þetta er samkvæmt lista sem samkeppnismiðstöð IMD viðskiptaskólans hefur gefið út síðan 1989 en þar tróna nú á toppnum Hong Kong í því fyrsta og Sviss í öðru sæti. Stærð bandaríska hagkerfisins nái ekki lengur að vera nóg til að halda þeim í efsta sætinu þar sem þeir hafa verið síðustu þrjú árin.

Hækkun vegna góðrar menntunar en lækkun vegna lélegrar stjórnunar

Þeir þættir sem vega hæst fyrir Ísland er vel menntað vinnuafl og hátt menntunarstig þjóðarinnar. Einnig er hreyfanleikinn í hagkerfinu talinn góður ásamt því að viðhorf meðal þjóðarinnar sé jákvætt og opið með traustum innviðum. Á móti kemur að skattkerfið er ekki samkeppnishæft ásamt því að gæði stjórnunar hins opinbera og fyrirtækja draga landið niður.

Nefna þeir að helstu áskoranir landsins séu að losa um fjármagnshöftin og umbætur í peningastefnu, gera verslun frjálsari og draga úr opinberum skuldum ásamt því að tryggja langtímajafnvægi í hagkerfinu og bæta opinbera menntakerfið.