Evrópusambandið og Bandaríkin hafa komist að samkomulagi um öruggan flutning persónuupplýsinga milli heimsálfanna. Evrópudómstóllinn ógilti fyrra samkomulag sem hafði verið í gildi í um 15 ár en frestur til að ná nýjum samningum rann út um mánaðarmótin.

Ógilt vegna almennra heimilda njósnastofnanna

Niðurstaða Evrópudómstólsins var sú að ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar um öruggar hafnir væri ógild, m.a. á þeirri forsendu að bandarískar eftirlitsstofnanir hefðu almennan aðgang að persónuupplýsingum sem vægi að friðhelgi einkalífs borgaranna. Evrópudómstóllinn benti á að fyrirtæki í Bandaríkjunum hafa verið þvinguð til að hunsa reglurnar í þeim tilvikum þar sem reglurnar stangast á við öryggi ríkisins, almanna- eða löggæsluhagsmuni (e. national security, public interest, or law enforcement requirements). Dómstóllinn tók sérstaklega tillit til þeirra upplýsinga sem uppljóstrarinn Edward Snowden afhenti blaðamönnum árið 2013, en þau gögn uppljóstruðu um umfangsmiklar njósnir Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna.

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar sagði í samtali við Viðskiptablaðið í byrjun nóvember:

„Það er alveg ljóst að það eru gríðarlegir hagsmunir undir. Það myndi hafa geigvænleg áhrif fyrir mjög mörg fyrirtæki ef það hefði verið lagt algert bann við þessum gagnaflutningi. Það er því allt kapp lagt á að leysa þessa stöðu. Það eru hafnar viðræður milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna“

Fyrir stuttu var einnig birt yfirlýsing frá tveimur af stærstu viðskiptasamtökum sem eiga viðskipti milli Bandaríkjanna og Evrópu þar sem varað var við afleiðingunum af því ef samningar myndu ekki nást. Þar sagði að það myndi hafa gífurlegar afleiðingar fyrir fjölda fyrirtækja.

Betri samningur en sá fyrri

sögn talsmanns framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins mun nýr samningur veita persónuupplýsingum sem hafa verið fluttar til Bandaríkjanna fullnægjandi vernd eins og tilskipun Evrópusambandsins gerir ráð fyrir. Nýr samningur mun heita EU-US Privacy Shield og er ætla að veita töluvert betri vernd fyrir persónuupplýsingar heldur en samningurinn sem var gerður árið 2000.

Hann sagði einnig að bandarísk yfirvöld hefðu fullvissað sambandið að Bandaríkin myndi ekki beita víðtækum njósnum gegn Evrópubúum. (á ensku: The U.S. has assured that it does not conduct mass or indiscriminate surveillance of Europeans ). Gert er ráð fyrir því að það muni taka um það bil þrjá mánuði fyrir samkomulagið að verða bindandi.

Jens-Henrik Jeppesen sem starfar hjá Center for Democracy & Technology hefur hins vegar sagt að samkomulagið gæti átt í erfileikum ef það lendir fyrir dómstólum. Hann byggði það á þeim röksemdum að engar umbætur hefðu farið fram á heimildum bandarískra njósnastofnanna.