Forystumenn innan miðjuflokkanna tveggja Bjartrar framtíðar og Viðreisnar hafa átt óformleg samtöl um samstarf í komandi sveitarstjórnarkosningum á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri að því er Fréttablaðið greinir frá.

Björt framtíð hefur starfað hefur í meirihlutanum í Reykjavík með vinstri flokkunum og Sjálfstæðismönnum í Hafnarfirði og Kópavogi, en nú hyggst enginn af sitjandi borgarfulltrúum flokksins gefa kost á sér í borginni á ný.

Nokkur nöfn eru nefnd til sögunnar í framboðum flokkanna, má þar nefna Nichole Leigh Mosty sem féll út af þingi fyrir Bjarta framtíð í kjölfar þess að flokkurinn sleit stjórnarsamstarfinu við Viðreisn og Sjálfstæðisflokkinn. Í kosningunum sem urðu í kjölfarið tapaði Björt framtíð öllum sínum fjórum þingmönnum og Viðreisn tapaði þremur af sínum sjö.

Viðreisnarmaðurinn Pawel Bartoszek sem féll af þingi í kjölfar ákvörðunar Bjartrar framtíðar er einn þeirra sem eru nefndir til sögunnar, en auk þeirra er María Rut Kristinsdóttir aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur formanns Viðreisnar nefnd sem mögulegt forystuefni.