Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur endurnýjað samning við Íslandsstofu um markaðsstarf á sviði ferðamála. Nýr samningur gildir til þriggja ára, eða út árið 2018.

Fram kemur í tilkynningu um endurnýjun samningsins að tilgangur hans sé að skapa samstarfsvettvang fyrir íslenska ferðaþjónustu sem stuðlar að samræmdu kynningar- og markaðsstarfi erlendis.

Íslandsstofa skal annast framkvæmd sem mun m.a. felast í því að vinna með mörkun Íslands sem áfangastaðar, kynna Ísland erlendis gagnvart skilgreindum markhópum með viðeigandi markaðsstarfi, vera vettvangur fyrir ferðaþjónustuna í markaðssókn á erlendum mörkuðum, byggja upp alþjóðleg tengsl og efla ímynd Íslands á erlendri grund í samstarfi við aðrar atvinnugreinar.

Á árunum 2013 og 2014 fékk Íslandsstofa samtals 1.009 milljónir króna samkvæmt ríkisreikningi . Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2016 er Íslandsstofu áætluð fjárheimild sem nemur 597 milljónum króna.