Samkeppnisyfirvöld Evrópusambandssins samþykktu í gær fyrirhugaðan samruna evrópsku kauphallarinnar Euronext og kauphallarinnar í New York (NYSE), en við samrunann yrði til fyrsta kauphöllin sem væri beggja vegna Atlantshagsins, segir í frétt Reuters.

Samruninn var samþykktur í ljósi gagna sem NYSE Euronext Inc. afhenti samkeppnisyfirvöldunum og í kjölfar skuldbindinga og loforða kauphallanna um framkvæmd samrunans. Samþykki Evrópusambandsins er háð því að samruninn hljóti samþykki yfirvalda þeirra landa sem Euronext og dótturfyrirtæki þess starfa í.

Hluthafar Euronext samþykktu samrunann með miklum meirihluta í desember. Einhverjir hluthafa höfðu áður lýst yfir áhyggjum um að íþyngjandi regluverk frá Bandaríkjunum myndi fylgja samrunanum, en NYSE hefur fullvissað um að svo verði ekki.

Stjórn Euronext hafnaði yfirtökuboði þýsku kauphallarinnar Deutsche Börse í júní og kaus fremur að ræða við NYSE, sem vakti reiði nokkura hluthafa og stjórnvalda í Evrópu sem vildu fremur sjá samþjöppun innan Evrópu.