*

laugardagur, 19. janúar 2019
Innlent 20. ágúst 2017 10:09

Samruni líklega háður skilyrðum

Sérfræðingur hjá Samkeppnisráðgjöf segir ólíklegt að hindrun verði sett við sameiningar í ferðaþjónustu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Sameiningar Gray Line og Iceland Travel, auk kaupa Íslenskra fjallaleiðsögumanna á Arcada og Arctic Adventures á Extreme Iceland eru dæmi um auknar sameiningar í ferðaþjónustu hér á landi síðustu vikurnar. Viðskiptablaðið fjallaði um það fyrr í sumar að það stefndi í auknar sameiningar og var rætt við Helgu Árnadóttur framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar sem sagði blikur vera á lofti í geiranum.

Eggert Ólafsson, sérfræðingur í samkeppnisrétti hjá Samkeppnisráðgjöf, sér ekki fram á að þær sameiningar sem hafi átt sér stað á undanförnum vikum í ferðaþjónustu eigi eftir að rekast á hindranir frá samkeppnisyfirvöldum, en hann bendir á að í fyrri sameiningum hafi verið sett skilyrði um upplýsingaflæði frá fyrirtækjunum til eigenda sinna.
„Aðaláhyggjuefnið er að stjórnarmenn séu óháðir og megi ekki sitja í stjórnum fjárstýringarfélaga eða aðila í tengdum rekstri,“ segir Eggert.

„Samkeppnislegu áhyggjuefnin eru að menn komist yfir viðkvæmar upplýsingar og þær leki yfir til keppinauta í gegnum eigendur, sem geti auðveldað samráð eða gefið fyrirtækjum forskot í samkeppni sín á milli.“

Aukin tæknivæðing

Jón Heiðar Þorsteinsson, markaðsstjóri Iceland Travel, segir að þó að ferðamannaiðnaðurinn sé almennt að stækka í heiminum þá ráðist val um ákvörðunarstað af svo mörgum þáttum. Tekur hann undir með þeim orðum Hrannar Greipsdóttur, framkvæmdastjóra Eldeyjar í viðtali við Viðskiptablaðið að Ísland eigi í samkeppni um ferðamennina.

„Við þekkjum það náttúrulega Íslendingar hvernig aukinn kaupmáttur hefur áhrif á okkar eigin ferðahegðun, það gildir nákvæmlega það sama í öðrum löndum,“ segir Jón Heiðar. „Ég held að almennt séð séu fyrirtæki að leita að hagkvæmni, til dæmis í því hvernig tæknin við bókunarkerfi og annað slíkt vinni með mönnum.“

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, tekur í sama streng. „Við höfum verið að leggja áherslu á þessa stafrænu vinnu og sjáum tækifæri í því að minnka handavinnu í kringum bókanir og afgreiðslu mála,“ segir Björgólfur. „Það væri auðvitað jákvætt að þessar hendur sem eru að sinna þessu geti þá nýst í öðru sem aflar fyrirtækjunum tekjur.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.