Samskip hafa um langt skeið stutt við bakið á tónlistarhátíðinni „Aldrei fór ég suður“. Samskip verður einn af aðalstyrktaraðilum hátíðarinnar. Samskip sjá um flutninga á tækjum og tólum fyrir hátíðina og veita henni jafnframt styrk í formi peningaframlags. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Einar Pétursson rekstrarstjóri Samskipa á Ísafirði ber hitann og þungann af samstarfinu og skipulagningu flutninganna en hann segir að gaman sé að snúast í kringum þetta verkefni sem setji svo mikinn svip á bæinn og sé kærkomin upplyfting í byrjun vors.

Hátíðin er um páskana, 13. til 16. apríl næstkomandi, og fer fram á hafnarsvæðinu á Ísafirði í nýbyggðri skemmu sem Rækjuverksmiðjan Kampi leggur til á gatnamótum Ásgeirsgötu og Suðurgötu. Sem fyrr kostar ekkert inn á hátíðina, sem nýtur stuðnings bæjarfélagsins og fjölda fyrirtækja.

Fram kemur á heimasíðu hátíðarinnar að viðhaldið sé þeirri stefnu að blanda saman straumum og stefnum í tónlist, konum og köllum, gömlum sem ungum, frægum og efnilegum og öllu þar á milli. Boðið verði upp á indípopp, blús, pönk, lúðrastuð, þungarokk, gleðipopp, rapp, köntrí, dramatík og dans. „Allir fá eitthvað, enginn fær ekkert, einn fær ekki allt,“ segir þar.