*

mánudagur, 23. apríl 2018
Innlent 18. mars 2017 19:45

„Samstarfið verði algjör negla“

Heiða Kristín Helgadóttir, framkvæmdastjóri Efnis ehf., segir að fyrirtækið hyggist virkja þá möguleika sem felast í hinni einstöku ímynd Íslands.

Pétur Gunnarsson
Forsvarsmenn Efnis og Eyris Invest. Frá vinstri: Örn Valdimarsson, Eyrir Invest, Heiða Kristín Helgadóttir, Efni, Oliver Luckett, Efni og Þórður Magnússon Eyrir Invest.
Aðsend mynd

Efni ehf. er fyrirtæki í eigu Heiðu Kristínar Helgadóttur framkvæmdastjóra félagsins, Oliver Luckett samfélagsmiðlasérfræðings og Eyris Invest. Heiða Kristín segir í samtali að hugmyndin bak við Efni sé að vera sterkur samstarfsaðili fyrirtækja sem vilja selja vörur sínar erlendis

„Við aðstoðum einnig fyrirtæki við að byggja upp söluleiðir og aðstoðum við markaðssetningu sem styður við söluleiðir, byggða á vörumerkinu Ísland, og þeim gildum og viðmiðum sem við erum sammála um að sé hryggjarstykki í því hvernig byggja eigi upp markaðssetningu og tryggja sér sérstöðu á erlendum mörkuðum,“ segir Heiða.

Hin einstaka ímynd Íslands

Forsvarsmenn Efnis vilja virkja þá möguleika sem felast í hinni einstöku ímynd Íslands, svo sem hreinni náttúru landsins og virku og öflugu menningarlífi. Heiða segir að við á Íslandi eigum jafnframt sterkar húmanískar tengingar sem skipta máli í þessu samhengi.

„Við erum friðsælt land og við höfum verið dugleg að prófa nýja hluti. Það er mikil gróska í íslensku samfélagi og það þróast mjög hratt. Við viljum segja þessa sögu okkar og tengja við þau fyrirtæki og þá þjónustu sem er til hér og passar við þessi viðmið og gildi,“ segir Heiða.

Spurð að því hvort fyrirtækið komi til með að einbeita sér að einhverjum ákveðnum atvinnugreinum segir Heiða: „Í fyrsta kasti þá erum við að leggja áherslu á sjávarútveginn á Íslandi. Fyrir margar sakir er hann tilbú­ inn að hlaupa af stað og segja sína sögu betur. Þar held ég að séu mikil tækifæri. Við eigum okkur langa sögu sem sjávarútvegsþjóð og höfum sérþekkingu hvað sjálfbærar veiðar varðar. Allt frá því að aflinn er tekinn upp úr sjónum og þangað til hann er fluttur úr landi er heilmikil bestun sem hefur átt sér stað í allri virðiskeðjunni og það er eitthvað sem við eigum að vera mjög stolt að segja frá. Okkur ber skylda til að tryggja að við séum að fá sem mest fyrir þessi gæði sem við erum að nýta og ég tel að það séu miklir möguleikar í því að auka verðmæti sjávarafurða enn frekar.“

Hún bætir við að Efni vilji einnig aðstoða fyrirtæki í heilsu- og hreinlætisvörugeiranum, sem er að hennar sögn geiri sem er í mikilli uppbyggingu. „Svo erum við Oliver tengd inn í geira, sem tengist hönnunarfyrirtækjum. Við höfum til að mynda verið í samstarfi við fataframleiðandann Inklaw. Þar eru líka spennandi tækifæri, sérstaklega hvað varðar sölu í gegnum netið á hönnun frá Íslandi,“ segir Heiða.

Heimurinn minnkar 

Oliver Luckett kemur til með að koma með talsvert af nýjum og ferskum hugmyndum inn í samstarfið, að sögn Heiðu. „Hans bakgrunnur liggur nánast í örófi internetsins. Áður en hann kom hingað til lands og settist að stofnaði hann meðal annars fyrirtækið theAudience, sem sérhæfir sig í áhrifavaldamarkaðssetningu. Það er spennandi tækifæri fyrir okkur. Það þýðir að fjarlægðin frá mörkuðum skiptir ekki eins miklu máli og hún gerði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

 
Stikkorð: fyrirtæki Efni ímynd Heiða Kristín nýstofnað