Samsung, stærsti snjallsímaframleiðandi í heimi, hefur gefið út afkomuviðvörun fyrir annan ársfjórðung. Býst tæknirisinn við því að hagnaður verði minni en væntingar gerðu ráð fyrir.

Samsung telur að hagnaðurinn frá apríl frma í júní muni falla um 4 prósent á milli ára og vera um 6,13 milljarðar Bandaríkjadala í stað 6,35 milljarða Bandaríkjadala eins og búist var við. Þá muni sala minnka um 8 prósent niður í u.þ.b. 42 milljarða Bandaríkjadala.

Samsung á erfitt með að finna sér vaxtatækifæri á mettuðum snjallsímamarkaðnum. Ekki er langt síðan hinn nýi og glæsilegi Galaxy S6 kom á markaðinn, en fyrirtækið hefur hins vegar glímt við mikinn birgðavanda og átt erfitt með að anna eftirspurn. Fyrirtækið segist þó hafa leyst þann vanda og gæti salan á S6 símunum slegið nýtt met hjá fyrirtækinu á næsta ársfjórðungi.

Samsung hefur þurft að glíma við mikla samkeppni frá Apple að ofan og hinum ódýra kínverska síma Xiaomi að neðan. Samsung var langt á undan Apple að koma með stóra skjái á símana sína en nú eru allir framleiðendur komnir með þannig vöru á markað.