Samsung símafyrirtækið í Suður Kóreu hvetur eigendur Galaxy Note 7 síma frá fyrirtækinu til að slökkva á símum sínum í kjölfar þess að nýjar fréttir um að símar fyrirtækisins haldi áfram að ofhitna. Hlutabréf í fyrirtækinu hafa lækkað um 7,50% á mörkuðum síðasta sólarhringinn.

Í september innkallaði fyrirtækið 2,5 milljón síma í kjölfar kvartana um rafhlöður sem sprungu, og fullyrti í kjölfarið að allir símar sem hefði verið skipt út væru öruggir.

Síðan hafa komið fréttir um að það væri að kvikna í fleiri símum, en síðast á mánudag fullyrti talsmaður fyrirtækisins að símarnir væru öruggir. Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu heyrist nú annað hljóð.

„Vegna þess að öryggi viðskiptavina okkar er fremst í forgangsröð okkar, biður Samsung alla sem selja símana um að stöðva sölu þeirra meðan rannsókn stendur yfir,“ kom fram í yfirlýsingu frá fyrirtækinu.

„Viðskiptavinir með annað hvort upphaflegu Galaxy Note 7 eða símana sem skipt var út fyrir þá gömlu eru beðnir um að slökkva á símunum og hætta að nota þá og nýta sér þær lausnir sem eru í boði.

Fréttir frá Suður Kóreu benda til þess að líklega muni fyrirtækið alfarið hætta að selja símana, vegna þess að vandamálið hefur skaðað ímynd fyrirtækisins verulega. Þrátt fyrir það hefur fjármálaráðherra Suður Kóreu varað við áhrifum þess á útflutning landsins sem myndi skaðast ef fyrirtækið myndi leggja símann alfarið á hilluna.