Sameiningar, hlutafjáraukningar og viðskipti með hlutafé í ferðaþjónustunni hér á landi hafa verið mikið í deiglunni á undanförnum mánuðum í breyttu rekstrarumhverfi. Hægari fjölgun ferðamanna, miklar kostnaðarhækkanir og versnandi afkoma hefur kallað á samþættingu, endurskipulagningu og hagræðingu innan greinarinnar, sem endurspeglast í auknum fjölda samruna og hægari fjölgun fyrirtækja í ferðaþjónustu. Fleiri fyrirtæki í greininni sýna skráningu á markað áhuga og þá renna erlendir fjárfestar og íslensk ferðaþjónusta hýru auga hvort til annars.

Segja má að vatnaskil hafi orðið í þróun ferðaþjónustunnar á síðasta ári, þegar rekstrarskilyrði fyrirtækja í ferðaþjónustu versnuðu til muna. Erlendum ferðamönnum tók að fjölga hægar en árin á undan, enda Ísland orðið einn dýrasti áfangastaður heims og innviðir landsins víða komnir að þolmörkum. Miklar launahækkanir, styrking krónunnar, hár fjármagnskostnaður og hækkun olíuverðs hefur bitnað á afkomu greinarinnar. Þá hefur neyslumynstur ferðamanna hér á landi breyst, þar sem hver ferðamaður eyðir minna í neyslu og afþreyingu en áður og dvelur skemur.

Erfitt er að draga upp mynd af afkomuþróun í helstu greinum ferðaþjónustunnar árið 2017, þar sem upplýsingar úr ársreikningum ferðaþjónustufyrirtækja liggja ekki fyrir. Í ársskýrslu Samtaka ferðaþjónustunnar fyrir síðasta ár kemur þó fram að veltan hafi aukist, á sama tíma og afkoman versnaði, sem er framhald frá fyrra ári.

Nýleg úttekt KPMG bendir til að fyrirtæki í ferðaþjónustu þurfi að leita allra leiða til hagræðingar á næstu árum til að viðhalda ásættanlegri rekstrarafkomu. Ellegar gæti sjálfbærni ferðaþjónustunnar veikst til lengri tíma litið og greinin orðið viðkvæmari fyrir áföllum. Lítil fyrirtæki og skuldsett eru þar líklegust til að riða til falls, en ferðaþjónustan á Íslandi er nokkuð brotakennd og einkennist af mörgum litlum rekstrareiningum – sem mörg hver hafa fjármagnað miklar fjárfestingar á síðustu árum með skuldum – og fáum mjög stórum fyrirtækjum.

„Gullgrafaræði ferðaþjónustunnar er lokið og greinin er núna komin á það þroskastig þar sem rekstrarumhverfið skilur sauðina frá höfrunum,“ segir Sigrún Hjartardóttir, verkefnastjóri í fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka.

Nú þegar eru komnar fram vísbendingar um að samþjöppun innan ferðaþjónustunnar sé komin á fullt skrið. „Það er til marks um að ferðaþjónustan sem atvinnugrein sé að leita í jafnvægi og að hún sé komin til að vera. Aðlögunin gæti orðið erfið, en það er eðlilegur vaxtarverkur til skamms tíma,“ segir Sigrún.

Sjö samrunar með yfir tveggja milljarða veltu

Í ár og á síðasta ári hafa sjö samrunar gengið í gegn þar sem velta sameinaðs félags er yfir tveir milljarðar króna og samrunaaðilar hafa að minnsta kosti 200 milljónir í ársveltu. Þau skilyrði gera samruna tilkynningarskyldan til Samkeppniseftirlitsins. Sameiningar af þeirri stærðargráðu hafa verið sjaldséðar í ferðaþjónustunni á síðustu árum, en það sem af er ári hafa fjórir slíkir samrunar fengið grænt ljós. Athygli vekur hve fjölbreyttir samrunarnir eru, en þeir eru ýmist samsteypusamrunar, lóðréttir samrunar eða láréttir samrunar.

Vert er að taka fram að hvorki fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra né Samkeppniseftirlitið halda sérstaklega utan um fjölda samruna og yfirtaka í ferðaþjónustu.

Sem dæmi um þá samruna sem hafa átt sér stað innan ferðaþjónustunnar hefur Arctic Adventures, stærsta fyrirtæki landsins á sviði afþreyingar fyrir ferðamenn, keypt afþreyingarfyrirtækið Extreme Iceland, útivistarfyrirtækið Tindar-travel og tvö hótel, Hótel Geirland við Kirkjubæjarklaustur og Hótel Hof-1 í Öræfum. Alls hefur fyrirtækið – sem býður upp á jöklagöngur, íshellaferðir, gönguferðir, snjósleðaferðir, hvalaskoðun, flúðasiglingar og kajakaferðir – keypt átta fyrirtæki á undanförnum árum. Velta þess er rúmlega 5,6 milljarðar króna og starfsmenn um 250.

Flugleiðahótel, dótturfélag Icelandair Group, keypti nýverið Alda Hótel Reykjavík á Laugavegi og móðurfélag Centerhotels keypti Hótel Kötlu í Vík í Mýrdal. Til stóð að ferðaskrifstofan Iceland Travel, dótturfélag Icelandair Group, myndi sameinast rútufyrirtækinu Iceland Excursions Allrahanda, sérleyfishafa Gray Line á Íslandi, en hætt var við þá sameiningu síðastliðið haust.

Þá hefur verið nokkuð um samsteypusamruna undanfarin tvö ár, þar sem fagfjárfestasjóðir hafa keypt hluti í ferðaþjónustufyrirtækjum. Í flestum tilfellum heimilaði Samkeppniseftirlitið samrunanna og hlutafjárkaupin með skilyrði um óhæði stjórnarmanna.

Horn III á vegum Landsbréfa keypti hluti í Bílaleigu Flugleiða, þriðju stærstu bílaleigu landsins og sérleyfishafa Hertz á Íslandi, Reykjavík Sightseeing Invest (í gegnum dótturfélagið PAC1501), og rútufyrirtækjunum Hagvagnar og Hópbílar. Eldey TLH á vegum Íslandssjóða hefur keypt ferðaskipuleggjandann Arcanum ferðaþjónustu, auk þess að hafa fjárfest í heilsulindinni Laugarvatn Fontana, hvalaskoðunarfyrirtækinu Norðursiglingu og afþreyingarfyrirtækinu Íslenskir fjallaleiðsögumenn. Akur fjárfestingar í rekstri Íslandssjóða keypti helmingshlut í rútufyrirtækinu Iceland Excursions Allrahanda, sérleyfishafa Gray Line á Íslandi og SF VII í rekstri Stefnis keypti hlut í Kynnisferðum.

Svigrúm í afþreyingu og farþegaflutningum

Sigrún segir að svigrúmið til aukinnar stærðar- og breiddarhagkvæmni innan ferðaþjónustunnar sé mest í afþreyingargeiranum og í farþegaflutningum.

„Í afþreyingu heyrir maður oft að fyrirtækin séu að borga bókunarsíðum og ferðaskrifstofum stóran hluta af sinni framlegð í þóknun. Í þeim geira væri hægt að nýta betur miðlæga þjónustu, eins og sölukanala og markaðsmál, með sameiningum. Það er síðan gríðarlega mikið fé bundið í bílaleigum og rútufyrirtækjum. Til dæmis var talað um offjárfestingu í bílaleigubílum síðasta sumar. Fyrirtæki í fólksflutningageiranum geta dreift fasta kostnaðinum betur með sameiningum og breiðara framboði, þar sem þau geta til að mynda boðið upp á hvoru tveggja einkabíla eða rútur,“ segir Sigrún.

Hún útilokar jafnframt ekki að stórar fyrirtækjasamsteypur, sem selja stóran hluta virðiskeðjunnar í ferðaþjónustu, muni líta dagsins ljós. Í dag sé Icelandair Group nærtækasta dæmið um slíkt fyriræki, með um 153 milljarða í veltu. Icelandair er ekki eingöngu flugfélag, heldur rekur félagið einnig hótel og ferðaskrifstofur. Einnig rekur flugfélagið WOW air ferðaskrifstofuna WOW travel og áformar að reisa hótel á Kársnesi í Kópavogi.

Hægir á fjölgun fyrirtækja

Hægari vöxtur ferðaþjónustunnar endurspeglast í fjölda þeirra fyrirtækja í ferðaþjónustu, sem stofnuð eru á hverju ári. Viðskiptablaðið aflaði gagna frá Ferðamálastofu og Samgöngustofu um þróunina á fjölda virkra rekstrarleyfa fyrir ferðaskipuleggjendur, ferðaskrifstofur, bílaleigur og rútufyrirtæki undanfarinn áratug, en þessir geirar mynda þriðjung af neyslu erlendra ferðamanna hér á landi.

Alls er 1.131 ferðaskipuleggjandi með starfsleyfi hér á landi. Á síðasta ári var hrein viðbót í þeirri stétt 131, samanborið við 146 árið á undan. Ferðaskrifstofur eru í dag 332. Þeim fjölgaði um 43 á síðasta ári, samanborið við 37 árið á undan, en þó hefur hægst á fjölgununni síðan 2014.

Þá hafa 147 bílaleigur rekstrarleyfi. Verulega hefur hægt á fjölgun þeirra undanfarin fjögur ár og hefur þeim jafnvel fækkað á síðustu tveimur árum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .