Samkeppniseftirlitið mun ekki aðhafast vegna kaupa Pressunar á öllu hlutafé í Birtíngi. Þetta kemur fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins vegna kaupanna.

„Að undangenginni rannsókn og með hliðsjón af gögnum málsins er það mat Samkeppniseftirlitsins að samruninn hindri ekki virka samkeppni á mörkuðum málsins og leiði ekki til myndunar eða styrkingar á markaðsráðandi stöðu. Þá leiðir samruninn ekki til þess að samkeppni, fjölræði eða fjölbreytni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti. Því eru ekki forsendur til að aðhafast vegna samrunans,“ segir meðal annars í úrlausninni.

„Markmið samrunans að mynda stærra og öflugra fyrirtæki á fjölmiðlamarkaði sem er betur í stakk búið til að takast á við breyttar aðstæður á markaði hér á landi og mæta síharðnandi samkeppni við aðra fjölmiðla, ekki síst erlenda,“ segir í fréttatilkynningu sem barst þegar tilkynnt var um kaupin .

„Gert er ráð fyrir að sameiginleg velta Pressunnar og tengdra félaga árið 2017 verði um tveir milljarðar króna. Starfsfólk samstæðunnar verður vel á annan hundrað, en starfsstöðvar eru í Kringlunni, Garðabæ, Ármúla og Skeifunni,“ segir að lokum í fréttatilkynningunni.

Birtíngur gefur meðal annars út tímaritin: Vikuna, Nýtt líf, Mannlíf, Séð og heyrt, Gestgjafann, Hús og híbýli, Júlíu og Söguna alla.